Fyrirtækjaheimsóknir á Austurland!

November 24, 2024

Fyrirtækjaheimsóknir á Austurland!

Fyrirtækjaheimsóknir á Austurland!
Helgina 3-5 maí 2024 þá fórum við stór kvennahópur í fyrirtækjaheimsóknir austur á firði, dásamleg ferð í alla staði, ein af þessum sem maður vill bara alls ekki missa af!

Flogið yfir Reykjavík

Fyrsta innanlandsflugið mitt! hvað betra þá en að fara í faðmi 40 annarra kvenna á leiðinni á Egilsstaði í afar ljúfu flugi, það varla bærðist vængur.

Fjörið byrjaði á flugvellinum, örlaði rétt svo pínu fyrir kvíða fyrir fluginu en ég hef í mörg ár verðið afskaplega flughrædd og hafði bara aldrei getað hugsað mér að fljúga innanlands þar til núna. Flugferðin gekk líka svona glimrandi vel og við lentum mjúklega á Egilsstaðaflugvelli þar sem vel var tekið á móti okkur. 

Rútan beið okkar og Ragna S.Óskarsdóttir frá Íslenskur dúnn ehf á Borgarfirði eystri tók á móti okkur ásamt rútubílstjóranum frá Tanna travel sem er í eigu hennar Díönu Mjöll Sveinsdóttur en það var faðir hennar Sveinn Sigurbjarnason sem stofnaði Tanna travel á sínum tíma árið 1970 með snjóbíl og fólksflutningabíl en árið 1974 var snjóbíllinn Tanni keyptur til að flytja fólk yfir Oddsskarð og er nafn fyrirtækisins dregið frá honum en það sagði hún okkur öllum frá á ráðstefnunni sem haldin var á laugardeginum.
Lesa má meira um Tanna travel.

En eins og ég sagði þá var vel tekið á móti okkur og öryggið var í fyrsta sæti hjá bílstjóranum því ekki var farið af stað fyrir en pottþétt væri að allar konur væru komnar í belti og þá lá leið okkar í Borgarfjörð eystri, beint út á Hafnarhólmann þar sem tugir Lunda biðu okkar í rigningunni.

Lundapartý. 

Sjáið þessi krútt, þau voru að kyssast og þessi mynd er ein af ansi mörgum af þeim, það var krúttað yfir sig.

Bið að heilsa!

Ég hefði getað verið þarna í marga klukkutíma að mynda þessa uppáhaldsfugla mína, þeir eru bæði svo smáir og líka svo knáir. En það var komið að fyrstu heimsókn ferðarinnar og það var til hennar Rögnu hjá Íslenskur dúnn.

Þar var okkur boðið upp á léttar veitingar og kynningu á starfseminni þeirra sem virkilega gaman var að fræðast og heyra um. Sagan hefst í villtum fjörðum Loðmundarfjarðar þar sem finna má gróskumikinn dal sem umkringdur er svörtum fjöllum en þar heimsótti hún þau Óla og Jóhönnu sem eru bændur þar en þau fylgja hefðbundinni íslenskum æðarræktarhætti. Æðarfuglinn verpir þar allt um kring á varptímanum þar sem allir búa í sátt og samlindi. Í sameiningu þá hafa þau snúið þeirri þróun við að allur dúnninn sé sendur beint út og í staðinn þá sá Ragna þarna tækifæri á að halda framleiðslunni á Íslandi. Svo að í dag þá framleiðir fyrirtæki hennar Icelandic Down/Íslensku dúnn nokkur af bestu æðardúnsrúmfötum heims fyrir viðskiptavini um allan heim. Allt er unnið á sjálfbæran hátt með staðbundinni efni og vinnu í einu fallegasta þorpi Íslands - Borgarfirði Eystri. 

Það má til gamans segja frá því að Ólafur æðadúnsbóndi hafði á orði að hann safnaði æðardúninum í 2 mánuði á ári hverju, hina 10 væri hann að hugsa um hann.

Ragna með samstarfskonum sínum

Æðadúnn

Næst lá leiðinni okkar á náttstað fyrri nætur en hann var Gistiheimilið Álfheimar, töskum skellt inn, sund dótið græjað og upp í rútuna aftur og beint niður í Blábjörg gistihús sem ég gisti á fyrir nokkrum árum síðan. Þar var farið í pottana, sumir skelltu sér út í með stæl og beint á bólakaf, nefni engin nöfn en fyrsti stafurinn byrjar á Ingunn! Já það var eftir því tekið, úff

Eftir notalega stund í pottunum þá lá leiðin í hlaðborð á Blábjörg og svo þaðan á nýja pöbbinn, KHB þar sem tveir trúbbar voru að troða upp. Dásamlegur dagur og kvöld, takk fyrir mig.

Borgarfjörður Eystri kvaddur

Ég skrifaði um Blábjörg og heimsókn mína í Borgarfjörðinn á sínum tíma 2020 og ykkur er velkomið að lesa um það hérna.

Nú þá var runninn upp dagur nr.2

Hann byrjaði á ljúffengu morgunverðarhlaðborði á Álfheimum og þaðan var svo lagt af stað inn á Egilsstaði og beint í Hús handanna þar sem var létt kynning á því sem þar er boðið upp á.


Hús handanna á Egilsstöðum þar sem konurnar gerðu margar hverjar góð kaup.

Svo var brunað á Hótel Hallormsstað á landshlutaráðstefnuna "Vörumerkið ég" sem hófst á kl.13 eftir að við höfðum komið okkur fyrir og fengið hádegismat.

Á ráðstefnunni komu fram 4 fyrirlesarar, konur búsettar á austfjörðum í deild FKA á austurlandi sem sögðu frá sínu vörumerki og sinni sögu. Allt þvílíkt magnaðar konur og frásagnir þeirra fengu okkur margar til að tárast enda snerti þetta okkur allar á einn eða annan hátt og fékk mann líka á sama tíma til að hugsa,
"hver er ég"

Þær sem fram komu á ráðstefnunni voru:

Heiða Ingimarsdóttir,
fomaður FKA Austurland, verkefnastjóri upplýsinga- og kynningarmála og ráðgjafi hjá KOM - Á eigin fótum
Jónína Brynjólfsdóttir,
forseti sveitarstjórnar Múlaþings og safnstjóri - Sanngildi
Díana Mjöll Sveinsdóttir,
framkvæmdastjóri Tanna Travel - Að halda áfram?
Elín Káradóttir,
eigandi Byr fasteignasölu - Sterkasta vopnið
Berglind Einarsdóttir,
framkvæmdastjóri Adventura - Hver er þessi ég?
Herdís Magna Gunnarsdóttir,
bóndi og varaformaður Bændasamtaka Íslands - Af hverju þú?
Unnur Elva Arnardóttir
formaður FKA flutti svo lokaorð ráðstefnunnar.

Á staðnum voru líka konur að kynna vörur sínar og selja og ég verslaði mér bæði Síróp og þurrkaða sveppi hjá annarri þeirra og hinni fékk ég mér nokkra skemmtilega segla.


Helga Eyjólfsdóttir eigandi af Mosa Páls 
með seglana sína sem voru afar skemmtilegir
Síðan hennar á feisbók

Hérna er hún Bergrún Arna Þorsteinsdóttir frá Holt & heiðar að kynna vörurnar sínar. Sýróp, sultur, þurrkaðir sveppir ofl fyrir sælkerana.

Það sem ég verslaði mér og er spennt að nota í matargerð og uppskriftir.

Uppskrift af þeirri allra einföldust köldu sósu sem ég hef gert er
4 msk af Grískri jógúrt og 2 tsk af Birkisírópi. Hrærið saman og kældi lítilega.

Hérna er uppskrift af Lax í ofni með aspas og kaldri sósu 

Nú eins og í sannri kvennagleði þá var næst á dagskrá Happy hour á barnum á Hótel Hallormsstað og svo sameiginlegur kvöldverður þar sem notið var fram á kvöld. Enn einn dásemdar dagurinn, takk fyrir mig.

Dagur 3

Morgunmatur og svo lá leiðin okkar í næstu ævintýrin.

Fyrsta stopp var á Vallanesi í Fljótdalshéraði og þar heimsóttum við Móður Jörð. Vallanes var meðal fyrstu býla á Íslandi sem hlaut lífræna vottun og hefur sleitulaust síðan verið vottað lífrænt.

Hérna hlustar hópurinn af athygli á það sem hún Eygló hefur að segja

Hérna er hún Eygló að segja okkur frá Móður jörð á Vallanesi, starfinu og framtíðarplönunum, margt virkilega spennandi.

Bopp var æði og svo hef ég verið að spara mér Rauðrófugló, spennt að prufa það líka.

Skemmtileg fræðsla og kynning á vörunum frá þeim og eins hvað plönin þeirra voru í framtíðinni. Maður að sjálfsögðu verslaði sér smá af sælkeravörum til að prufa síðar og jafnvel búa til eitthvað spennandi.

Næsta stopp, Sesam bakarí á Reyðarfirði þar sem þær sysur og makar tóku á móti okkur með gómsætum veitingum.

Hérna eru þær systur með mökum sínum sem reka bakaríið saman. 
Gregorz Zielke Baker, Valur Þórsson yfirbakarameistari, Elísabet Sveinsdóttir og Þórey Sveinsdóttir.

Gaman var að heyra þeirra sögu um fyrirtækið og þeirra vegferð og til minningar frá því þegar ég kom þarna síðast í hringferðinni minni fékk ég Franska vöfflu, skemmtileg saga sem áhugasamir geta lesið um heimsókn mína á Franska safnið og Fáskrúðsfjörð hér.

Þá var komið að Eskifirði en þar var okkur boðið að koma í heimsókn á eina hátæknilegustu fiskvinnslustöð landsins, Eskju. Að sjálfsögðu fengum við skemmtilega kynningu og frásögn á sögu vinnslunnar og að skoða fiskvinnsluna sem er engin smásmíði, vitið þið, það tekur 2.mánuði að þrífa verskmiðjuna á milli vertíða!!

Þetta rifjaði upp þá tíð þegar maður vann með gagnfræðaskólanum í Frystihúsinu Barðanum, einu að fáu ef ekki bara eina frystihúsinu sem var inn í landi ef svo má að orði koma en það var staðsett í Kópavoginum í húsunum sem er staðsett fyrir aftan Orkuna á Dalvegi, svona til fróðleiks, já þá voru nú ekki mörg húsin þar og Dalvegurinn ekki til en minningarnar frá því tímabili voru og eru einstakar, það ættu allir að vinna í frystihúsi einhverntíman á lífsleiðinni til að sjá og skilja þessa mikilvægu vinnu en nóg af því...áfram með smjörið.

Hérna eru þau Hlynur Ársælsson rekstrarsjóri uppsjávarfrystihússins og Erna Þorsteinsdóttir stjórnarformaður og framkvæmdarstjóri að segja okkur frá sögu fyrirtækissins sem var bæði afar fróðleg og skemmtileg, já lítil sjávarpláss geta verið að gera stóra hluti og það er á sama tíma mjög dýrmætt fyrir sveitafélögin að hafa fiskvinnslur og störf fyrir fólkið í bæjarfélögunum.

Nú heimamenn slóu að sjálfsögðu upp veislu og buðu upp á heimagerða súpu, vefjur ofl. Takk fyrir okkur.

Eskja sendi okkur öllum dásamlega Jólasíld og hérna er hópurinn að taka á móti henni.

Við þökkum fyrir okkur!

Ef þið hélduð að þarna væri ferðalagi okkar við það að ljúka þá var það nú ekki svo því nú lá leiðin okkar aftur inn á Egilsstaði og beint í heimsókn hjá þeim hjónum á Fjóshorninu Egilsstöðum sem framleiðir skyr, jógúrt og ost úr kúamjólk frá Egilsstaðabúinu. Himnesk veisla og allir gátu verslað hér gómsætan ost frá þeim sem ber nafnið Gellir salatostur, þvílíka sælgætið.


Hjónin Baldur Gauti og Eyrún Hrefna sem framleiða mjólkurafurðir frá Egilsstöðum og reka kaffihúsið Fjósahornið.

Þennan ost væri ég til í að fá á höfuðborgarsvæðið, hann var einstaklega góður, allt öðruvísi en ég hafði búist við.

Eins á öllum stöðum þá var boðið upp á veitingar

Mæli með...
Sá á feisbókarsíðunni þeirra að hann er til sölu í Matarbúri Krónunnar á Akureyri, vonandi kemur hann á höfuðborgarsvæðið líka og svo er bara að fylgast með þegar þau eru með á mörkuðum víðsvegar um landið.

Þá var komið að næsta stað, sjálfum Hreindýra garðinum á Egilsstöðum (Reindeerparkiceland), sem er í eigu þeirra Björns Magnússonar og Ásdísar Sigríðar Björnsdóttur, dóttir hans.  

Já við fórum í heimsókn og hittum tvö hreindýr, þau Garp & Mosa og fengum að klappa þeim og gefa þeim smávegis að borða, ég held að við höfum allar gengið í barndóm þarna aftur, þetta var svo gaman og að komast í þessa návist við þau, það er nú ekki á hverjum degi. 

Þarna lifa þau ljúfu lífi

Hreindýrin Garpur & Mosi - Halló stelpur, hann vildi athygli þessi.

Hérna er hún Ásdís Sigríður Björnsdóttir dóttir hans Björns Magnússonar sem eru eigendur af Hreindýragarðinum á Vínlandi.

Þegar hérna er komið þá er eingöngu einn staður eftir, rúsínan í pylsuendanum, Vök baths við Urriðavatn þar sem slökun, pottar og dýrlegt útsýni í dásamlegum hóp kvenna var notið áður en flogið var aftur til Reykjavíkur í súpergóðu flugi, já sveimérþá, held ég eigi bara eftir að taka innanlandsflug aftur einn daginn.

Vök baths 

Enda þessa ferða og myndasyrpu með fallegum myndum teknar á flugi aftur heim til Reykjavíkur.

Takk æðislega fyrir samveruna kæru A-AUÐS konur!

Þessi dásamlega ferð var á vegum Atvinnurekenda AUÐS, sjálfstæðrar deildar innan félags FKA. Það voru stjórnar-_og félagskonur í ferðanefnd A-AUÐS sem sáu alfarið um alla framkvæmd, skipulagningu og undirbúning ferðarinnar og þær eiga miklar þakkir skildar fyrir frábæra ferð frá A-Ö

Fyrir áhugasamar konur þá er hérna beinn linkur á Atvinnurekaanda Auð, 
þar sem fræðast má meira um
 félagið. 
Smellið hér

Texti & myndir
Ingunn Mjöll/Islandsmjoll




Skildu eftir athugasemd

Athugasemdir verða samþykktar áður en þær birtast.


Einnig í Blogg & greinar!

Hellarnir við Hellu!
Hellarnir við Hellu!

December 12, 2024

Hellarnir við Hellu!
Lengi langað til að skella mér í þessa hellaskoðunarferð á Hellu og lét loksins verða að því þegar ég dvaldi í viku í Fljótshlíðinni. Ég skellti mér í ferð sem boðið var upp á fyrir íslensku mælandi en þær eru auglýstar sérstaklega. 

Halda áfram að lesa

Halló Selfoss!
Halló Selfoss!

December 06, 2024

Halló Selfoss!
Ég elska fyrirtækjakynningar og kynningar á einyrkjum um allt land og hérna eru New Icelanders í Félagi Fka kvenna að bjóða konum á Selfoss þann 28.september 2024 og nágrenni í skemmtilegar kynningar á nokkrum fyrirtækjum.

Halda áfram að lesa

Bílheimar!
Bílheimar!

November 25, 2024

Bílheimar!
Einstakt á heimsvísu myndi ég halda þar sem 6 bílatengd fyrirtæki koma saman undir einu þaki og styðja við hvort annað. Virkilega skemmtilegt hugmynd sem varð að veruleika. 

Halda áfram að lesa