Flatey á Breiðafirði

May 07, 2022 4 Athugasemdir

Flatey á Breiðafirði

Flatey, matarkista Breiðafjarðar
Við Breiðafjörðinn eru nær óteljandi eyjar eða um það bil 2700-2800 og er annar stærsti flói landsins. Ekkert smá margar en látum duga að heimasækja eina þeirra.

Ég hafði komið þarna árið 2014 með vinkonu minni í dagsferð sem var alveg hreint dásamleg fyrir utan það að hún var of stutt svo ég var búin að ákveða að koma aftur og að dvelja þá yfir nótt eða tvær, njóta en ekki þjóta eins og sagt er. Ég lét svo verða að því í júlí 2021 og dvaldi ég á Hótel Flatey í tvær nætur.

Þarna eru í boði ýmsar stærðir af herbergjum, allt frá einstaklings, fjölskyldu og  upp í svítu, svona á gamaldags mátann enda eru húsin ekki stór þarna.

Tekið er á móti þér við bátinn og farangurinn er ferjaður á litlum sendibíl á milli og svo gengur fólk í rólegheitunum yfir á hótelið, sem er gott að vita. 

Hótel Flatey

Herbergið sem ég fékk bar nafnið Krían og bar það nafn sitt svo sannarlega með rentu. Fyrir hliðina á því var reyndar svo kölluð svíta með þvílíku dásemdar útsýni yfir eyjarnar. Ég stefni á að gista þar næst, þvílíkur draumur en Krían dugði mér að þessu sinni enda var ég úti um alla eyjuna að mynda og njóta dýrðarinnar og að hitta fólkið sem þarna kemur og dvelur ýmist part af sumri nú eða allt árið um kring eins og hann Bjarni sem ég hitti þar annan daginn á göngu með hundinn sinn.

Við spjölluðum lítilega saman og hann sagði mér frá því að hann dveldi þarna allan veturinn meira og minna einn á eyjunni eða alveg síðast liðin tvö árin. Ég horfði á hann hissa, aleinn, ja hérna, ég veit ekki af hverju ég fann fyrir svona miklum áhyggjum af honum, eitthvað í mér greinilega, þótt svo að ég þekkti manninn ekki neitt. Og hvernig ferðu að með mat og annað slíkt spurði ég hann enn áhyggjufull, jú blessaður Baldur kemur hérna einu sinni í viku með vistir handa mér, það var aldeilis gott að vita verð ég nú að segja en aleinn!

Jú þetta er alveg hægt ef maður hefur alltaf nóg fyrir stafni og ég hef trú á að það hafi hann svo sannarlega eins og sjá mátti á ferðum hans um eyjuna á traktórnum og svo er örugglega gott að vita af einhverjum sem lítur til með eyjunni og húsunum. Já ég segi nú bara, magnaður maður. (Mér láðist alveg að fá að smella af honum mynd)

Eyjan iðar af lífi yfir sumartímann og er í nægu að snúast fyrir fólk að ditta að húsum sínum og halda við, njóta veðurs og sitja jafnvel úti með prjónana sína eins og þessar tvær vinkonur sem ég hitti fyrir á rölti mínu en fjölskyldur þeirra beggja eiga þarna hús sem þær koma í á hverju ári til að njóta.

Einarshús (Skrína) Þarna sitja þær vinkonurnar Þórunn & Gerður

Myllustaður

Húsin sem sjá má frá Hótelinu á leiðinni að lundabjarginu.

Nú þarna kom svo að hin fræga Lúx­ussnekkj­an Ragn­ar sem einhverjir kannast orðið við og var þekkt sem ísbrjóturinn hér áður fyrr en hann lá fyrir utan eyjuna og mér ekki til setunnar boðið annað en að smella mynd af honum. 

Það var mikið af ferðamönnum þarna þennan dag á vegum National Geographic og mikið af ljósmyndurum á meðal þeirra líka, gaman að sjá og spjalla við þá nokkra og eins og sjá má á myndinni þá fóru þeir út í skipið með gúmmíbátum sem skutust þarna fram og tilbaka. Kannski smá skondin leið svona þegar maður hugsar um höfnina sem er þarna.
          
Fuglalífið er dásamlegt á eyjunni og fyrir ástríðu ljósmyndara eins og mig þá er þetta gullkista að sjá og mynda. Þarna má finna Lóuþræl, Sandlóu, Sendlinga, Þórshana, Æður, Rauðbrysting, Snjótittling, Tjald og svo má ekki gleyma blessaðri Kríunni sem verndar ungana sína þarna með lágflugi og skríkjum svo fólk verður að jafnan hrætt við hana en ég gekk þarna um með mína dásamlegu húfu Islandsmjallar óhrædd við þær og þá einhvernveginn voru þær ekki eins mikið skaðræði, þetta með hugarfarið virkar vel skal ég segja ykkur.

Matartími

Knús eða slagur, hvað haldi þið.

Svo eru það mínir uppáhalds, elsku krúttin sem flögra svo hratt að maður má hafa sig allan við ef maður ætlar að ná mynd af þeim á ferð, ekki bara litlir, heldur líka snöggir. Svo þegar þeir setjast á túnin eða steinana og koma út úr holunum sínum á varptímanum þá nær maður stórkostlegum myndum af þeim, þeir eru eðalkrútt.



Ein sæt lunda mynd í lokin.

Þúfutittlingur

Óðinshanar

Ég gekk þessa dagana fram og tilbaka um eyjuna í róleg heitunum og naut þess sem fyrir augu mín bar og svo skoðaði ég líka Flateyjarkirkju sem var byggð árið 1926 bæði að innan sem utan og listaverkin hans Baltasar Samper sem brýðir hana að innan eru dásamlega falleg en hann katalónskur listmálari frá Barcelona sem hefur búið hérna á Íslandi í meira en hálfa öld. En hann er faðir hans Baltasars Kormáks, leikara, leikstjóra og kvikmyndaframleiðanda.

Sjá meira um
Flateyjarkirkju

Þarna má líka finna tjaldsvæði þar sem bæði er hægt að tjalda sjálfur en einnig virðist vera hægt að leigja sér hjólhýsi.

Ég get svo ekki sleppt að sýna ykkur myndir af dásamlegu kindunum sem rölta saman út um alla eyjuna og maður hittir,, hversu yndislegur staður þetta er fyrir dýrin að njóta á, frjáls eins og fuglinn fljúgandi.

Koma,,,

Fara,,, 

Ég stóðst nú heldur ekki mátið að snæða á hinu rómaða veitingahúsi á hótelinu en þar stóð hann Friðgeir Trausti Helgason kokkur vaktina yfir eldhúsinu ásamt fólki sínu og hitti ég hann aðeins lítilega. Friðgeir notar margt afar skemmtilegt í matargerð sinni eins og hundasúrur, sjótruflur sem hann þurrkar, þara sem hann skolar rétt aðeins en ekki of mikið til að halda saltinu en á hótelinu var sérstakt þurrk herbergi þar sem hann lét hann þorna. 

Ég fékk mér annað kvöldið alveg dásamlegan Skessujurtahúðaðan þorsk sem var kryddaður með hinni frægu Skessujurt en ég var að kynnast þeirri jurt í fyrsta sinn, já maður þekkir ekki allt og veit ekki allt og ég hafði mikið reynt að finna út hvar þessa blessuðu jurt væri að finna og þarna var hún, bara úti í garði við eitt húsið í Flatey og núna veit ég hvernig hún lítur úr og núna skil ég líka nafnið á henni! Mér var svo sagt að hún vaxi víða villt í Reykjavík en hvar, veit ég ekki, ég mun hafa augun opin.

Hann Friðgeir var svo almennilegur að fara þangað og sýna mér og um leið fékk ég að smella af honum mynd. (Sjáið, skessujurtin er næstu því jafn há og hann.

Fiskurinn var borin fram með fennel, rauðlauk, eplasalati og smá dilli og það skemmtilega við hann var að maður fann fyrir hverju bragðinu á fætur öðru og það rann ekki saman við sósunu, sælkeraveisla fyrir bragðlaukana og sælkerann sjálfann og ég mæli heilshugar með. 

Hægt var líka að fá silung sem kom frá Brjánslæk en hann var borinn fram með hundasúrusósu ofaná með fennel og eplasalat en þetta voru réttir kvöldsins. Það getur samt verið misjafnt á milli daga hvað er á matseðlinum. Ég stóðst svo ekki hina margrómuðu Flateyjarköku sem ég hafði heyrt svo mikið af og vitið, ég fékk meira að segja uppskriftina af henni til að deila með ykkur, sjá uppskrift hér:

Nú ég hafði svo ætlað mér að fá mér hinn fræga Flahito Flatey, þeirra útfærsla af  Mohito kokteillnum sem var orðin heimsfrægur en hann samanstóð af lime, skessujurt og rabarbara, Rommi, sodavatni og hrásykri en því miður var hann ekki til né var boðið upp á neina kokteila þessi kvöld sem ég var þarna svo ég fékk mér einn Iris coffie en áhugaverður var hann.

Veitingastaðurinn á hótelinu og svið

Daginn sem ég hélt áfram ferð minni vestur með Baldri að Brjánslæk þar sem bílinn minn beið mín þá ákvað ég að fá mér eitthvað gott að borða í hádeginu á hótelinu og þá var hún vöndu að ráða, átti ég að fá mér hinn dýrindis hamborgara sem búið var að segja mér að væri eitthvað sem ég mætti ekki missa af að smakka eða átti ég að fara í Fiskisúpuna, ég valdi blessaðan borgarann en hann Friðgeir var svo sætur í sér að hann færði mér smakk af súpunni sem var alveg dásamlega góð, full af allsskonar góðgæti og það sem gerði hana svo skemmtilega og sérstaka fyrir mér var að hann notaði stilkana af skessujurtinni út í hana, vitið, það var salgæti að mínu mati.

Næst panta ég súpuna og borða fulla skál af henni og til að fyrirbyggja allan misskiling, þá var borgarinn virkilega góður, bara takmarkaðað hvað konan getur borðað og notið.



Og bara svona til að deila því með ykkur þá datt ég í lukkupottinn og fékk gefins smá af skessujurt hjá vinafólki mínu sem ég bæði þurrkaði til að eiga til að krydda með og svo skar ég niður stilkana og frysti, ég mun prufa að nota bæði við gott tækifæri og búa mér til dýrindis fiskisúpu a la carte Ingunn. Veit hvert ég leita næst.
Texti & myndir
Ingunn Mjöll/Islandsmjoll.is
   
Ég verð afar þakklát fyrir alla deilingu.

P.S. Hérna geta áhugasamir skoðað fleirri myndir sem ég tók úti í Flatey
Og hérna má skoða fuglamyndirnar.



4 Svör

Ingunn Mjöll
Ingunn Mjöll

June 29, 2023

Dásamlegt að heyra Ægir, dásamlegt að koma út í Flatey og gefa sér tíma þar og njóta.

Mbk.
Ingunn Mjöll

Ægir Franzson
Ægir Franzson

May 31, 2023

Takk fyrir frábærar myndir frá æsku slóðunum ég ólst upp í Flatey hjá ömmu minni og afa takk fyrir þetta

Ingunn
Ingunn

May 30, 2023

Hjartans þakkir fyrir Sverrir, virkilega gaman að heyra þegar fólki líkar það sem maður er að gera og skrifa, takk takk.

Sverrir Kristjánsson
Sverrir Kristjánsson

May 30, 2023

Frábært auga sem þú hefur fyrir myndefninu.

Skildu eftir athugasemd

Athugasemdir verða samþykktar áður en þær birtast.


Einnig í Blogg & greinar!

Stóreldhússýningin 2024!
Stóreldhússýningin 2024!

December 13, 2024

Stóreldhússýningin Laugardalshöll
Var haldinn dagana 31.október og 1.nóvember 2024 í Laugardalshöllinni. 
Þarna eru fjöldinn allur af matvælatengdum fyrirtækjum á markaðinum saman komin til að kynna sig og sjá aðra. Alltaf jafn gaman að koma og sjá, fræðast og smakka nýjungar sem mörg fyrirtækjanna eru með á boðstólunum.

Halda áfram að lesa

Hellarnir við Hellu!
Hellarnir við Hellu!

December 12, 2024

Hellarnir við Hellu!
Lengi langað til að skella mér í þessa hellaskoðunarferð á Hellu og lét loksins verða að því þegar ég dvaldi í viku í Fljótshlíðinni. Ég skellti mér í ferð sem boðið var upp á fyrir íslensku mælandi en þær eru auglýstar sérstaklega. 

Halda áfram að lesa

Halló Selfoss!
Halló Selfoss!

December 06, 2024

Halló Selfoss!
Ég elska fyrirtækjakynningar og kynningar á einyrkjum um allt land og hérna eru New Icelanders í Félagi Fka kvenna að bjóða konum á Selfoss þann 28.september 2024 og nágrenni í skemmtilegar kynningar á nokkrum fyrirtækjum.

Halda áfram að lesa