Patró & Látrabjarg

May 10, 2022 2 Athugasemdir

Patró & Látrabjarg

Patró & Látrabjarg
Hátindur hafsins og alls ekki fyrir lofthrædda nema þá í fylgd með einhverjum til að halda í höndina á! Já trúið mér en á sama tíma líka gott fyrir egóið að takast á við eigin lofthræðslu, svo langt sem það nú nær ;)

Ég var komin á Patreksfjörð að hluta til að keyra út á hið ógnarlega en fagra bjarg, Látrabjarg.  Það var reyndar þrautinni þyngri en ég hafði séð fyrir mér, hvað var ég eiginlega að hugsa, ég þessi ofurlofthrædda kona!

En ég var líka komin til að skoða bæinn, sjá hvað væri í boði og prufa nýjan veitingastað sem ég hafði ekki prufað áður.

Það var svo verulega skrítin tilfinning enn og aftur að geta ekki gert allt sem maður hafði ætlað sér vegna allsskonar sóttvarnar reglna og þess háttar og var mikið lokað en við dveljum ekki við það, gefur mér fulla ástæðu til að koma aftur.

Ég gisti á Fosshótelinu sem er eitt úr keðju Íslandshótelanna sem eru staðsett víðsvegar um landið og eru þau eins misjöfn eins og þau eru mörg, hótelið á Patreksfirði er mjög fínt og veitingastaðurinn niðri með góðan mat.


Fiskur & franskar sem ég fékk mér í ljósmyndaferð 2017, mjög gott.

Ég hafði tekið ferjuna Baldur yfir í Flatey þar sem ég gisti í tvær nætur á Hótel Flatey og þaðan fór ég svo yfir með Baldri en bílinn minn hafði ég sent áfram á Brjánslæk með bátnum og beið hann mín þar. Algjör snilldar þjónusta sem þeir eru með í boði, svona fyrir þá sem ekki vita það.

Það var þungt þarna yfir að sjá þennan dag!

Ég sat í bílnum mínum í um tvo klukkutíma daginn eftir fyrir utan hótelið og horfði yfir, reyndi að segja sjálfri mér að það væri ekki nógu bjart og að ég myndi örugglega ekki ná neinum góðum myndum og á sama tíma þá sagði ég við sjálfa mig, Ingunn, þú ert komin alla þessa leið til þess að fara þangað og ná loksins þessum Lunda myndum þínum, þú getur ekki verið þekkt fyrir það að fara ekki, þótt svo að enginn myndi hvorki vita það og væru örugglega alveg sama þá var mér ekki sama og ég vildi standa við það sem ég hafði ákveðið og það fyrir mig svo ég lagði af stað og til mikillar gleði þá birti nú yfir öllu.

56 kílómetrar, þú getur þetta!
Þetta voru þeir allra erfiðustu 56.kílómetrarnir sem ég hafði keyrt á ævi minni og ég var oft svo stjörf af hræðslu að ég þorði hvorki að horfa til hægri né vinstri, heldur bara beint áfram og þakkaði guði og öllum hans öndum að ég hefði ekki hitt neina rútu á leiðinni (var samt búin að ákveða að ef það gerðist þá ætlaði ég bara að leggja bílnum og fara út úr honum á meðan og standa upp við vegginn 😭
Ein brekkan var alveg svakaleg, í mínum huga og ég var farin að hugsa að ég myndi aldrei ná því að keyra hana tilbaka og þegar ég var að keyra Örlygshöfðann fann ég svitann spretta og hugsaði, hvað er þetta að þýða, ég er að keyra Örlygshöfða og svo er í herbergi sem ber sama nafn, eru örlög mín hér! Ég neitaði að trúa því og hér sit ég og skrifa þessa vittleysu, sprelllifandi.

Örlög enn óráðin!

     
Nú á köflum náði ég þó að njóta smá fegurðarinnar á leiðinni, svona þegar mér fannst ég vera örugg og á leiðarenda komst ég þó að lokum. Þessi fallegu hús voru þarna á leiðinni.
     
Útsýnið!
Ég náði á leiðarenda, glöð og sæl, skellti myndavélunum á axlir mínar og lagði af stað, þurfti nú reyndar að fá aðstoð frá fólki við að komast upp tröppur og annað enda bara með aðra hendina örugga. Ég náði að rölta þarna smá upp og þá fór að fara um mig ógleði og svimi og það sem fór endalega með mig var að sjá fólk á brúninni hér og þar að láta taka af sér myndir, hvað er eiginlega að þessu fólki, hefur það ekki horft þarna niður, veit það ekki hvað þetta er hátt!! 
      
Þarna má sjá vitann, tröppurnar upp á bjargið og leiðina meðfram fjallinu!

Mér svimaði svo rosalega og fann hvernig fætur mínir voru að gefa sig, ég var ekki að njóta mín þarna og dreif mig því niður aftur um leið og ég hafði náð nokkrum myndum af Lundakrúttunum sem var ein af aðalsástæðunni fyrir veru minni þarna á bjarginu háa en hin var að takast á við þessa hræðslu. Næst ætla ég að hafa einhvern til að halda í höndina á mér, trúið mér, kannski vera í bandi líka eins og fjallagöngu hetjurnar.
      
Ég hafði reyndar sent vinkonu minni videó af þessu ævintýri mínu og sagði henni að ég væri nú ekki alveg viss um hvernig í ósköpunum ég ætti eftir að komast aftur á hótelið og viti menn, hún tók þessu bókstaflega, hún setti Patreksfjörð hreinlega á hvolf (smá íkjur) til að redda mér fari og einhverjum til að sækja svo bílinn fyrir aumingjans vesalinginn sem treysti sér ekki aftur sömu leið en það vissi ég þó reyndar ekki fyrr en 😁 var komin aftur á hótelið og búin að opna þessa einu bjórdós sem ég var með og skála fyrir sjálfri mér, húrra húrra húrra Ingunn, þú gast þetta og ykkur að segja þá var leiðin tilbaka mikið auðveldari en þá líka vissi ég nkl hvað beið mín, hvaðan ég var að koma og hvert ég var að fara. Vitið, ég gæti þetta alveg aftur, eftir einhver ár!

Sokkarnir mínir þeir voru reyndar rennandi blautir svo langt rann hræðslusvitinn 🤣
Ég hugsaði reyndar eftir á þegar ég keyrði framhjá afleggjaranum niður á Rauðasand (sem ég var skíthrædd að fara einu sinni) að ég hefði kannski betur farið bara þangað, enda bara 10 kílómetrar en ekki 56, veit ekki samt, á eftir að prufa að keyra þangað sjálf, svona til að geta metið það fyrir alvöru!

Finna má fleirri myndir af ferð minni á Látrabjarg og Patreksfjörð á síðunni minni á feisbókinni undir Ingunn Mjöll Photography eða með því að smella hérna

Lundamyndirnar er hægt að skoða allar svo hérna

Látrabjarg stendur yst við Breiðafjörð norðanverðan og er vestasti tangi landsins. Það markast af Keflavík í austri og Bjargtöngum í vestri. Bjargið er 14 km langt og hæst 444 m y.s. Ca 270 sinnum hæð mín.
Suðurhlíð bjargsins er sums staðar mjög sæbrött, annars staðar er hún víða með grasi grónum beltum.


Í fjörunni í Skápadal við Patreksfjörð hefur Garðari, elsta stálbáti Íslendinga, verið siglt á land. Hann er mikið skoðaður sem og myndaður og haf ég tekið þær nokkrar sjálf í nokkur skipti og má alveg sjá mun á honum hvert árið. Áhugasamir geta lesið um sögu hans hérna.

Að loknum mínum mikla áfangasigri þá var vel úr vegi að verðlauna sig með því að fara út að borða og varð Stúkuhúsinu á Patreksfirði fyrir valinu hjá mér að þessu sinni og mæli ég svo sannarlega með því. 
Stúkuhúsið var opnað sem veitingahús 1.jún 2012 og er staðsett á mjög góðum stað í miðjum bænum rétt hjá sundlauginni.
Eigendur eru Steinunn Finnbogadóttir og Freyr Héðinsson, en þau keyptu húsið árið 2012 og gerðu það upp og hófu reksturinn 1. júní 2012.

Bóndasæla Chili brauð, bernaise, steiktur laukur, salat, roast beef, niðursoðin paprika, döðlur, beikon og pik-nik.

Dýrindis tertu sneið í eftirmat sem ber nafnið Óskadraumur.
   
Stúkuhúsið á Patreksfirði

Séð yfir glæsilegu höfnina

Bátaskýlin

Þarna má sjá Fosshótelið fyrir miðju fjallinu.

Áhugaverður staður t.d. að skoða á leiðinni er t.d. 
Rauðdalsskörð (Rauðuskörð/Reiðskörð) sem eru háir og þunnir berggangar á Barðaströnd sem ná alla leið til sjávar. (Mynd tekin 2017)

Horft niður á Rauðasand (Mynd tekin 2017)

Kirkjan á Rauðasandi (Mynd tekin 2017)
  
Þú getur verslað þér Islandsmjallar/Ingunnar flókann hérna ef þú vilt styrkja síðuna, með fyrirfram þakklæti.

Texti & myndir
Ingunn Mjöll



2 Svör

Ingunn
Ingunn

May 15, 2022

Já nkl Nanna, takk fyrir það. Kv Ingunn

Nanna
Nanna

May 15, 2022

Gott hjá þér að ýta á. Alltaf gaman að outdo yourself

Skildu eftir athugasemd


Einnig í Umfjallanir

By Artos!
By Artos!

June 30, 2024

Premium Seasoning blends by Artos!
Eru frábær krydd sem koma úr höndum hans Helga B Helgasonar matreiðslumeistara en hann lærði á sínum tíma hjá honum Stefáni í Múlakaffi á árunum frá 1976-1980. 

Halda áfram að lesa

LovaIceland!
LovaIceland!

June 19, 2024 1 Athugasemd

LovaIceland!
Virkilega góð krem sem eru nýleg á Íslenskum markaði en fyrirtækið LovaIceland  var stofnað árið 2017. Vörunar fást orðið víða og hafa íslendingar tekið vel á móti vörulínunni og er hún að á virkilega góð meðmæli.

Halda áfram að lesa

Matarmarkaður Íslands!
Matarmarkaður Íslands!

May 06, 2024

Matarmarkaður Íslands!
Var haldinn í Hörpu dagana 13-14 april 2024 þar sem bændur, sjómenn og smáframleiðendur koma saman og selja afurðina sína beint til neytandans og kynna vörur sínar. 

Halda áfram að lesa