Djúpivogur

May 01, 2020

Djúpivogur

Djúpivogur

Árið er 2017!
Já þar byrjaði þetta allt saman, vefsíðan komin upp sem skel og nú var að safna efninu í viðbót við allt hitt á hana en svo gerðust hlutir sem ekki var hægt að sjá fyrir sér þá og árið núna er 2020, ár sem verður okkur í fersku minni um ókomna tíð, engu að síður en hér er ég núna, í endurminningunum að deila með ykkur.
Voru þið ekki annars búin að spenna beltin, því nú leggjum við af stað.
Djúpivogur
Þá er hringferðin hafin sem nýtt var í að mynda, skoða og safna upplýsingum um hitt og þetta, skemmtilegt og fræðandi, vonandi fyrir þá sem þekkja ekki allt og vita, frekar eins og ég gerði þá, nú ef þú veist eitthvað sem ég veit ekki eða vilt fræða mig um, segja mér sögu, kynna fyrir mér nýjung, hvað sem er þá tek ég sæl á móti því á ingunn@islandsmjoll.is

Ég er stödd á Djúpavogi, dásamlegu bæjarfélagi þar sem fegurðin er allt í kring, hvert sem augum er litið.
Tjaldsvæðið er til fyrirmyndar þar sem búið er að koma sér fyrir, myndavélarnar eru komnar á herðarnar og lagt er af stað í skoðunarferð.

Hún byrjaði kannski ekki vel skoðunarferðin því ég varð fyrir því óláni að missa af mér lesgleraugun og þegar ég uppgötvaði það og fór að leita af þeim þá var því miður búið að keyra yfir þau en það stoppaði nú ekki fegurðina allt í kring og málunum var reddað með búðargleraugum til bráðabrigða og haldið var áfram að ganga um og myndað allt sem á veginum varð eða því sem næst enda af mörgu að taka!

Djúpivogur er staðsettur á austfirðunum og er samkvæmt upplýsingum sem ég fann á þessari síðu um 594 kílómetrar þangað og 6.klukkutímar og 28.mínútur að keyra þangað í beinni keyrslu á meðalhraðanum 84.9 km á klukkustund og þú getur líka reiknað þar út hvað eldsneytisnotkunin er mikil og hvað það kostar, þá vitum við það en á þessari sömu síður er hægt að finna hinar ýmsu vegalengdir, bara hvert viltu fara í sumar.
Langabúð Djúpavogi
Á Djúpavogi er svo miklu meira að sjá en ég átti von á en eitt af því er þetta söguleg mannvirki eins og Löngubúð, fallega uppgert hús sem liggur við höfnina en húsið er elsta húsið á Djúpavogi.
Það mun vera byggt í núverandi mynd um 1850 en hægt er að lesa sér til um húsið hérna fyrir áhugasama.

Í dag er rekið þar Langabúð kaffihús þar sem boðið er upp á hina ýmsu viðburði sem ég hef reyndar ekki komið á en gott er að eiga eitthvað eftir fyrir næstu ferð, kannski mér verði boðið upp á kaffi þar.

Hótel Framtíð er hótel staðarins með langa og merka sögu sem hægt er að lesa sér til um hérna 
Hótel Framtíð
Það var danskur verslunarmaður að nafni Gustaf Ivarsen sem kom með húsið tilhöggvið alla leið frá Kaupmannahöfn og var það reist um veturinn 1905-1906 en í dag hefur það verið margendurbætt og stækkað við það og er rekið af hjónunum Stefáni Arnórssyni og maka hans Guðrúnu Önnu Eðvaldsdóttir.

Það viðurkennist alveg hér með að ég hef eingöngu myndað húsið að utan en á eftir að heimsækja það að innan og fá mér eitthvað gott að snæða og drekka með og hver veit nema að ég hitti þá eigendur hótelsins, ja ég reyndar kom inn í lobbýið þar, var alveg búin að gleyma því.

En eina skemmtilega sögu hef ég að segja frá því þarna árið 2017 en hún var að tvemur starfsmönnum af hótelinu sem aðstoðuðu okkur við að setja upp eða taka niður tjaldvagninn en þeir bjuggu á sjálfu tjaldsvæðinu og að þeirra sögn var það að þeirra eigin vilja en ekki af því að þeir gætu ekki dvalið á sjálfu hótelinu eða einhverju því tengdu heldur elskuðu þeir íslensku náttúruna og sögðust hafa allt til alls þarna og njóta þess að vakna upp við ferskt loft á hverjum degi og svo væri líka ansi stutt í vinnuna sem þeir voru glaðir með, já það er svo sannarlega misjafnt hvað fólk er nægjusamt með og þessi tveir félagar voru alsælir með sitt, þessa stundina.
Finna má facebook síðu hótelsins hérna:
          
Annað áhugavert sem er þar að finna eru hin 34. Egg í Gleðivík. Listaverk sem voru vígð 14.ágúst árið 2009 eftir hann Sigurð Guðmundsson listamanns sem gaman er að sjá en um er að ræða 34 fuglsegg sem eru eftirmyndir íslenskra varpfugla, Lómseggið er stærst en lómurinn er einkennisfugl svæðisins og er hugmyndin sótt í fjölskrúðugt fuglalíf á svæðinu en á leiðinni þangað má finna áhugaverðan stað fullan af allsskonar steinum, beinum ofl úr náttúru Íslands, Odins Cabin og Thors Cabin, ég mæli svo sannarlega með því að skoða þetta magnaða safn.
          
          
Þegar við vorum að ganga þarna meðfram þá hittum við einn ansi áhugaverðann mann sem var úti að ganga með hundinn sinn og týnandi steina í flæðarmálinu í leiðinni og það fyrsta sem hann spurði ferðafélagann minn að sem einhverra hluta vegna heilsaði honum á ensku var afhverju í ósköpunum hann væri að tala við hann á ensku, hann væri nú íslendingur, já stundum vissum við bara ekki hver talaði íslensku í ferðinni okkar eða hver ensku, engu að síðu þá upphófst samtal sem leiddi til þess að hann bauð okkur að koma á vinnustofuna sína og að sjá sýningarsal sem hann var með, við þökkuðum fyrir og sögðumst hugsa málið, vorum nú ekki alveg á að fara eitthvað með manninum og héldum svo áfram göngu okkar í leit að meira myndefni ekki vitandi hvaða myndefni maðurinn var að bjóða uppá, við hefðum hlaupið upp til handa og fóta ef við hefðum gert okkur grein fyrir því þá stundina en svo á leiðinni tilbaka á tjaldsvæðið gengum við í gegnum svona vinnuhverfi og mættum  þá manninum aftur sem endurtók auðvitað boð sitt svo við kunnum nú eiginlega ekki við annað en að þyggja það og röltum á eftir honum, við vorum jú tvær!
           Húsnæði Steinasafn Auðuns
Hann gengur að stóru viðgerðarverkstæðis bili og opnar hurðina og bíður okkur inn fyrir, eitthvað fannst honum við vera hikandi því hann sagði hvellt og hátt, svona komið inn, ég er nú ekki að fara gera ykkur neitt, svo við horfðum hvor á aðra og settum fæturnar yfir hurðaropið og vorum þá komnar inn á risaverkstæði, nú var okkur nú ekki farið að litast á blikuna en þá gengur hann rösklega að tröppum sem liggja upp og þar má sjá eins og stórt smíðað háaloft svo við hættum okkur á eftir manninum og þegar upp var komið og inn, þá stóðum við algjörlega gapandi af undrun því annað eins og annan eins fjársjóð höfðum við ekki séð áður!
Auðunn
Jú viti menn, þarna vorum við komnar inn í glæsilegan sýningarsal með þvílíku steinasafni að við hreinlega misstum máttinn af aðdáun, ég get allavega sagt ykkur það hér með að maðurinn ætlaði aldrei að losna við okkur aftur út en bauð okkur að koma aftur til sín daginn eftir og skoða steinana sem hann var með í næsta bili fyrir hliðina á og væri að selja og hvar hann væri að slípa þá en það er svo sannarlega ekki á hverjum degi sem manni er boðið í svona einkasýningu en sjá má umfjöllun mina um hann Auðunn hjá Steinasafni Auðuns Baldurssonar hér.

Ég á svo sannarlega eftir að koma þarna aftur og skrifa meira um dásemdir þessa fallega bæjarfélags og kannski að maður kynnist fleirrum þá og hafi tal af og fái sér kaffi, mat og glas af einhverju góðu með og skrifi meira í leiðinni.


Um kvöldið kom þessi líka þessi fallega dalalæða yfir og enda ég með fallegri mynd af henni.


Skildu eftir athugasemd


Einnig í Umfjallanir

Matarmarkaður Íslands!
Matarmarkaður Íslands!

May 06, 2024

Matarmarkaður Íslands!
Var haldinn í Hörpu dagana 13-14 april 2024 þar sem bændur, sjómenn og smáframleiðendur koma saman og selja afurðina sína beint til neytandans og kynna vörur sínar. 

Halda áfram að lesa

Sinnep Svövu
Sinnep Svövu

April 05, 2024

Sinnep Svövu 
Sinnep Svövu eða Sælkerasinnepið hennar Svövu sem ég kalla það alltaf hefur heldur betur unnið hug sælkeranna. Hún byrjaði með eina tegund en í dag eru þær orðnar sex talsins, hver annarri betri eða að mínum mati, allar góðar og gott að geta valið sitt uppáhalds.

Halda áfram að lesa

Mannamót 2024 - Hluti 3
Mannamót 2024 - Hluti 3

February 21, 2024

Mannamót 2024 - Hluti 3
Og áfram höldum við og núna erum við komin norðaustur eða á leiðinni þangað í það minnsta með smá viðkomu á Mývatni og Húsavík.

Halda áfram að lesa