Bíldudalur & Vegamót!

May 19, 2022

Bíldudalur & Vegamót!

Bíldudalur & Vegamót!
Ég mæli svo innilega með stoppi á Bíldudal þegar verið er á ferðalagi vestur á firði og að snæða á Vegamótum. Það er líka í fullkomnu lagi að gera sér bara sér ferð þangað og njóta alls sem Bíldudalur bíður upp á.

Ferðasagan heldur áfram:
Frá Patreksfirði hélt leið mín áfram á Bíldudal enda ferðin að mestu fyrirfram ákveðin. Sólin skein þennan daginn og margt var um manninn á Vegamótum en það kom ekki í veg fyrir hlýjar móttökur. Ég var fyrir löngu búin að ákveða að fá mér fiskinn & franskarnar, það kom ekkert annað til greina, hreinlega búin að dreyma það og stóðst hann allar mínar væntingar og vel það, toppeinkunn frá mér.

Bildudalur

Kvöldinu áður hafði ég hitt hjón á Patreksfirði og í léttu spjalli hafði ég sagt þeim frá að ferð minni væri næst heitið á Bíldudal og þá sérstaklega til að fá mér fiskinn fræga á Vegamótum og hvað haldið þið, þau sátu á næsta borði og voru að fá sér fisk & franskar, hversu dásamlegt er það.

Fiskisagan, hún flýgur sko!


Og að sjálfsögðu var smellt af mynd af Gísla þegar hann kom með fiskinn.

Þau Gísli Ægir Ágústsson og Anna Vilborg Rúnarsdóttir keyptu Vegamót árið 2018 en hann hafði verið í eigu frænda hans í 27.ár og svo 3 kvenna úr fjölskyldunni í 5.ár þar á eftir og þegar þær ákváðu að hætta þá buðu þær þeim að taka við rekstrinum, svo þau slóu til. Þar voru Bíldælingar heppnir.

Vegamót er eini veitingastaðurinn á Bíldudal og þar af leiðandi sá besti.

Hann er ekki bara veitingastaður, heldur líka kaffihús, verslun, pósthús, ísbúð, pöbbinn og staðurinn þar sem þeir eldri menn hittast í hádeginu að spjalla saman, hin eins sanna félagsmiðstöð eða kannski mætti frekar segja að hann sé "Hjarta bæjarins" 
    
Hún er kannski lítil búðin en úrvalið er stórfínt.

Gísli er mikill mataráhugamaður og þegar hann er ekki að elda þá er hann syngjandi glaður eða að sjá um veislustjórn. 

Hann bíður líka upp á veisluþjónustu, bæði innan bæjar sem utanbæjar hefur maður séð og er afar vinsælt að fá hann enda ekki ósjaldan sem hann grípur með sér gítarinn og syngur fyrir gestina. Hann tekur líka að sér að vera veislustjóri og heldur svo oft uppi stuðinu líka. Hver vill ekki fá svona einn fjölhæfan í veisluna sína. Nú svo tekur hann lagið reglulega á Vegamótum.

Ekki má svo gleyma því að hann er líka Fjallabróðir. Ég held að það sé sjaldan lognmolla í kringum hann Gísla og er hann er líka mikill fjölskyldumaður. Það er svo sannarlega vel þess virði að slá nokkar flugur í einu höggi og heimsækja Bildudal & Vegamót.

Þau eru bæði fædd og uppalinn á Bíldudal og voru saman í bekk alla sína skólagöngu og í dag eiga þau saman 3.börn og er æsku heimilið hans Gísla beint á móti Vegamótum, svo það er ekki langt að fara í heimsókn og er það ósjaldan sem hann eldar þar líka en það hefur maður séð á Snappinu hans. Þið finnið hann þar undir Vegamótaprinsinn (gisliagustson). Addið honum endilega, hann hefur gaman af því.

Opnunartími Vegamóta er frá kl. 10–22 yfir sumarið og styttist svo yfir veturinn þegar hægir á umferðinni. Allsskonar viðburðir eru í boði líka allt árið eins og villibráðahlaðborð, jólahlaðborð, þorrablót ofl skemmtilegt en hægt er að fylgjast með dagsskránni á síðunni þeirra á feisbók, smellið hér

Þeir félagarnir að sprella saman, Gísli og Kris sem vinnur hjá þeim og hefur gert síðustu árin. Þeir bregða sér í hin ýmsu hlutverk, syngja, spila og fíflast eins og þeim er einum lagið en hann Kris er líka stórgóður saxafónleikari.
Ég er spennt fyrir því að koma aftur og þá ætla ég að prufa eitthvað annað á matseðlinum hjá þeim og stoppa lengur, vera búin að redda gistingu og njóta þess að vera þarna 2-3 daga í það minnsta. Það er gott að vera ekki búin að klára allt. Það er eitthvað svo dásamlegt við litlu bæjarfélögin að það er ekki nóg að þjóta bara í gegnum þau, maður þarf að staldra við og kynnast fólkinu.

P.S. Ef þið vitið um gistingu á góðu verði, hvíslið því þá að mér.
    
Ekki verða bensínlaus.

Þú getur svo fyllt á bílinn þinn hjá Hannesi frænda hans Gísla og verslað fallega  gjafavöru í Magazíninu. Bensínstöðin er staðsett þarna þarna fyrir hliðina á Vegamótum. Myndin er af honum Hannesi og frænku hans.

Skrímslasetrið

Bíldudalur stendur við hinn fagra Arnarfjörð og tilheyrir sveitarfélaginu Vesturbyggð. Það sem er í boði þarna er t.d. safnið hans Jóns Kr.Ólafssonar söngvara. Þar má finna Skrímslasetrið sem helgað er sjóskímslum við strendur Íslands en Gísli var einn af stofnendum þess. Hægt er að skella sér á slóðir Gísla Súrssonar í Geirþjófsfirði, nú eða aka út með firðinum vestur í Selárdal að skoða höggmyndir Samúels Jónassonar og þar sem hann Gísli á Uppsölum bjó, svo fátt eitt sé nefnt. 

Já þarna má líka finna tjaldsvæði sem er staðsett við Íþróttahúsið Byltu niður við sjó.

Ég spurðist þarna fyrir í sambandi við hvaða leið ég ætti nú að fara því næst lá leið mín á Búðardal þar sem ég ætlaði að gista næstu nóttina og var mér þá bent á að fara aftur tilbaka á Patreksfjörð, Fjarðarheiðina og niður þar á Bjarkalund en mig langaði svo til að fara hina leiðina sem lá um Dynjandaheiðina en svona fyrir þessa lofthræddu þá var þetta spurning og þegar viðkomandi heyrði að ég hefði nú farið út á Látrabjarg þá sagði hann, heyrðu kona, þú ert þá búin að mastera vestfirðina, ég ákvað að trúa því. Hún var á köflum mjög ógreiðfær sökum viðgerða og breytinga en falleg var hún.

Þarna má sjá laxeldi Arnarlax

Ég ákvað að fara Dynjandaheiðina á leið minni yfir á Búðardal og ég get sagt ykkur það að ef ég hefði vitað það fyrirfram að ég ætti eftir að skríða (keyra) upp hvert fjallið á fætur öðru og niður hinu megin er ég ekki viss um að ég hefði hætt mér af stað í ferðina mína fyrir það fyrsta, guðsélof fyrir það, því núna er ég búin að fara þetta og veit hvað þetta er og treysti mér því aftur (svo framalega sem ég sé undir stýri sjálf, eitt skref í einu hér) ég myndi reyndar ekki vilja fara þessa leið öfugt en það er bara ég 😉

En útsýnið, magnað!

Áhugasamir geta svo skoðað myndirnar sem ég tók á Bíldudal hérna

Velkomið að deila.

Texti & myndir
Ingunn Mjöll



Skildu eftir athugasemd

Athugasemdir verða samþykktar áður en þær birtast.


Einnig í Blogg & greinar!

American SchoolBus Café!
American SchoolBus Café!

December 26, 2024

American SchoolBus Café!
Ég dáist að þrautseglu fólks sem kemur frá öðrum löndum til að byggja sér upp nýtt líf á Íslandi og hérna er ein stutt saga þess efnis um strákana George Ududec & Alex Slusar sem komu fyrir nokkrum árum síðan frá Rúmeníu til landsins til að vinna. 

Halda áfram að lesa

Stóreldhússýningin 2024!
Stóreldhússýningin 2024!

December 13, 2024

Stóreldhússýningin Laugardalshöll
Var haldinn dagana 31.október og 1.nóvember 2024 í Laugardalshöllinni. 
Þarna eru fjöldinn allur af matvælatengdum fyrirtækjum á markaðinum saman komin til að kynna sig og sjá aðra. Alltaf jafn gaman að koma og sjá, fræðast og smakka nýjungar sem mörg fyrirtækjanna eru með á boðstólunum.

Halda áfram að lesa

Hellarnir við Hellu!
Hellarnir við Hellu!

December 12, 2024

Hellarnir við Hellu!
Lengi langað til að skella mér í þessa hellaskoðunarferð á Hellu og lét loksins verða að því þegar ég dvaldi í viku í Fljótshlíðinni. Ég skellti mér í ferð sem boðið var upp á fyrir íslensku mælandi en þær eru auglýstar sérstaklega. 

Halda áfram að lesa