Torgið á Siglufirði

July 12, 2022

Torgið á Siglufirði

Torgið á Siglufirði
Ég datt þarna inn einn daginn og hitti þá félaga Danna og Finna en ég hafði heyrt af því að þarna væri í boði svakalega gott hlaðborð alla virka daga í hádeginu. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, sannkallað veisluborð og ekki skemmdu vinalegar móttökur þeirra félaga.


Torgið er staðsett í gula húsinu við bátahöfnina

Finni og Danni

Þennan daginn var svakalega bragðgóð Gúllassúpa sem kitlaði bragðlaukana svo um munaði. Síld, rúgbrauð, silungur, franskar, kartöflur, dásamlega góð sveppasósa, meðlæti og pizzur svo eitthvað sé nú upptalið.

Næst þegar ég kom, já ég kom aftur! 

Þá var í boði rosalega góð Kartöflusúpa með beikoni og ég var að smakka þannig súpu í mitt fyrsta skipti. Hún kom mér sælkeranum verulega á óvart, gæti alveg hugsað mér að elda hana einn daginn sjálf heima og á örugglega eftir að gera það. Auðvitað var þar líka svignandi hlaðborð af allsskonar góðgæti, forréttir, aðalréttir, pizzur og meðlæti á mjög svo sanngjörnu verði.

Þeir bjóða upp á mjög fjölbreyttar súpur og rótera þeim svona yfir vikuna og þær sem eru vinsælastar sögðu þeir eru Fiski-,Kjöt- og Kjúklingasúpan, svo eru líka Sveppa, Aspas og Gúllassúpur. 

Matseðill vikunnar kemur svo ávallt inn á síðunni þeirra á feisbókinni í byrjun vikunnar, sem og aðrar upplýsingar, sjá hér

Gúllassúpa - Takið eftir borðunum en þau eru myndskreytt eftir Ingvar Erlingsson áhugaljósmyndara en svona eru öll borðin á staðnum eða voru á gamla staðnum þeirra.

Það gerðust nefnilega miklar breytingar hjá þeim á meðan ég var þarna allan maí mánuðinn á Ólafsfirðinum að staðurinn þeirra sameinaðist öðrum og færðist um set og er hann núna staðsettur í Gula húsinu þar sem áður var Hannes Boy fyrir hliðina á því Bláa og á móti Rauðku, þau fara ekki framhjá ykkur þarna við bryggjuna. Staðurinn hélt þó nafni sínu og er það komið upp á gafl húsins, eftir að ég fór. Næ mynd af því síðar.

Ég ætla að leyfa myndunum frá gamla staðnum að fylgja hérna með sem skemmtilegt minningarbrot. 

Ég var samt heppin að ég náði að heimsækja nýja staðinn áður en ég fór aftur suður á opnunardegi þeirra og þið finnið nokkrar myndir af honum hérna neðar á síðunni.

Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Magnúsdóttir sem standa/stóðu að baki veitingastaðnum Torginu en var hann opnaður árið 2016 í þeirri mynd sem sjá má á myndunum.
        
Torgið er notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar og er vel sóttur af bæði heimamönnum og ferðamönnum bæði í hádegi og á kvöldin og hafði ég heyrt að fiskibollurnar væru mjög vinsælar og góðar og var ég alveg harðákveðin í að þær ætlaði ég að panta mér þegar ég kæmi að kvöldi til. (Þær eru reyndar ekki í boði á nýja matseðlinum þeirra nema á barnaseðlinum en hver veit, kannski þær bætist á matseðilinn síðar, allt er breytingum háð). Börnin eru allavega heppin.

Flott og gott úrval á hlaðborðinu, allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.


Það er snild að koma við í hádeginu og gæða sér á ljúffengu hlaðborði, nú eða koma og eiga notalegt kvöld og velja sér eitthvað gott af matseðlinum. 

Þegar ég kom þarna á opnunardaginn þá var ég svo búin að ákveða að fá mér þessar frægu fiskibollur en þar sem þær voru svo ekki lengur á matseðlinum valdi að fá mér í staðinn einn þann besta Kjúklingaborgara sem ég hef fengið, hann fær toppeinkunn frá mér eins og allt annað sem ég hafði smakkað. 

Sjá matseðil

Sjarminn sem fylgdi gamla staðnum verður svo sannarlega í minningunni hjá manni en nýjum stað fylgja nýjar áherslur/breytingar og nú geta þau með sanni tekið á móti stærri hópum og færri þurfa frá að hverfa sem er alveg hreint út sagt dásamlegt og óska ég þeim öllum hjartanlega til hamingju með nýja staðinn og sameininguna, nýr staður með nýjan sjarma með dásamlega fallegu útsýni út á bátahöfnina og að Hótel Sigló.

Dásamlegt útsýni að Hótel Sigló, smá báta höfninni og fjöllin blá/hvít.

Nýja staðsetning Torgsins.

Rýmra pláss

Takk fyrir mig! 
Ég kem klárlega aftur.

Texti & myndir 
Ingunn Mjöll





Skildu eftir athugasemd

Athugasemdir verða samþykktar áður en þær birtast.


Einnig í Blogg & greinar!

Stóreldhússýningin 2024!
Stóreldhússýningin 2024!

December 13, 2024

Stóreldhússýningin Laugardalshöll
Var haldinn dagana 31.október og 1.nóvember 2024 í Laugardalshöllinni. 
Þarna eru fjöldinn allur af matvælatengdum fyrirtækjum á markaðinum saman komin til að kynna sig og sjá aðra. Alltaf jafn gaman að koma og sjá, fræðast og smakka nýjungar sem mörg fyrirtækjanna eru með á boðstólunum.

Halda áfram að lesa

Hellarnir við Hellu!
Hellarnir við Hellu!

December 12, 2024

Hellarnir við Hellu!
Lengi langað til að skella mér í þessa hellaskoðunarferð á Hellu og lét loksins verða að því þegar ég dvaldi í viku í Fljótshlíðinni. Ég skellti mér í ferð sem boðið var upp á fyrir íslensku mælandi en þær eru auglýstar sérstaklega. 

Halda áfram að lesa

Halló Selfoss!
Halló Selfoss!

December 06, 2024

Halló Selfoss!
Ég elska fyrirtækjakynningar og kynningar á einyrkjum um allt land og hérna eru New Icelanders í Félagi Fka kvenna að bjóða konum á Selfoss þann 28.september 2024 og nágrenni í skemmtilegar kynningar á nokkrum fyrirtækjum.

Halda áfram að lesa