Stykkishólmur

June 24, 2021

Stykkishólmur

Stykkishólmur & Sjávarpakkhúsið
Það er alltaf svo notalegt að heimsækja Stykkishólm eða Hólminn eins og hann er kallaður af heima-mönnum. Ekki svo ýkja langt eða aðeins um 163 kílómetrar frá Reykjavík, þar að segja ef þú býrð þar, rétt um 2 tíma keyrsla svona til upplýsinigar fyrir áhugasama. Annars er google map snilld, vísar þér leiðina og spjallar við þig á leiðinni, svona ef þú ert ein/n á ferð.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Fransiskus hotel á þessum líka fallega degi sem ég kom þarna, speglunin og kyrrðin saman í bland.

Falleg gata í Hólminum, eitthvað svo kyrrlátt þarna.
       
Tvö af veitingahúsunum, Narfeyjarstofa og Sjávarpakkhúsið.

Það er svo margt þarna að sjá og skoða eins og gallerí fyrir áhugsama um hönnun og handverk. Bærinn rekur svo nokkur söfn þar og má þar nefna t.d. Norska húsið Ljósmyndasafnið, Vatnasafnið og Eldfjallasafnið, ætti að vera eitthvað fyrir alla. Þú getur svo toppað heimsóknina með því skella þér í siglingu um Breiðafjörðinn og smakka á allsskonar sjávarkyns sem dregið er beint upp úr sjónum og skoða eyjarnar með öllu því dásamlega fuglalífi sem þar er að finna. Tilvalið væri svo að heimsækja fallegu eyjuna Flatey og eiga þar dásamlegan dag nú eða gista þar yfir nótt.

Fyrir þá sem ætla sér að sigla svo yfir á Brjánslæk stendur til boða að senda bílinn á undan sér og sækja hann svo við komuna þar daginn eftir, hversu mikil snilld er það. Hérna má skoða siglingaáætlun ferjunnar Baldurs.

Njóttu þess að skoða vitann og útsýnið frá Súgandisey.
Það eru tröppur þangað upp fyrir spræka.

Fallegt sjávarflæði þarna.

Ég var að ljúka ferðapakkanum mínum sem ég hafði verslað mér frá Íslandshótel/Fosshótel árið 2020. Hótelið er staðsett á hægri hönd fljótlega þegar komið er inn í bæinn, rétt ofan við sundlaugina.

Ég hafði pantað svo borð á Sjávarpakkhúsinu eftir að hafa skoðað alla þá staði sem í boði voru á netinu og ætlaði mér að njóta vel.
Ég hefði hugsanlega pantað mér borð og notið þess að borða á hótelinu en þar sem það var engan matseðil að finna né upplýsingar um hvort hægt væri að borða þar þá valdi ég annan stað. Ég komst að því svo við komuna á hótelið að þar er veitingastaður og heyrði ég vel af honum látið af fólki sem ég hitti.
Ég tek hann bara út síðar en vissulega væri gott ef þessar upplýsingar hefðu verið til staðar áður en maður kom og var því komið til skila.

Sjávarpakkhúsinu er staðsett alveg við höfnina en mig langaði svo mikið í ljúffenga sjávarrétti og staðurinn rómaður fyrir þá og ég get með sanni sagt ykkur að ég fór alsæl frá borði, já og pakksödd.

Ég hafði ákveðið að fá mér einn aðalrétt og svo eftirrétt en lét svo freistast af 6.rétta smakk seðlinum hjá þeim! Ég fékk svo hvern réttinn á fætur öðrum og naut þess að skola þeim niður með ísköldu hvítvíni en ég mæli hinsvegar alveg með því að deila þessu öllu með öðrum ef þið eruð ekki ein á ferð eins og ég var og bæta þá bara við eins og einum eftirrétti, nú eða kartöflusmælkinu með ef þið verðið ekki södd, því þegar ég var komin á síðasta réttinn var ég alveg sprungin, samt ekki of södd fyrir eftirréttinn!

Ég fékk reyndar alveg að njóta vel og hvíla á milli eins og ég óskaði og það var vel þegið enda finnst mér fátt dásamlegra en að njóta matar í rólegheitunum.
       
Þú skoðar matseðilinn með þeirri nýjung sem er orðin svo víða með því að stilla myndavél símans yfir og halda í smá stund og þá birtist hann blessaður matseðillinn, tæknin í dag. Þarna hægra megin er svo einn af réttunum sem kom með þeim fyrstu, Þorskkinnar með tartarsósu, algjört salgæti.
       
Hörpuskel vinstra megin og Grásleppuhrogn með vöfflum hægra megin, bæði virkilega gott og komu hrognin mér skemmtilega á óvart.
       
Bláskel var réttur númer 4, vel útlátið.
       
Svo var það alveg dásamlegur Hlýri og Súkkulaðimús og ís í eftirrétt.
Allt fær þetta toppeinkunn frá mér sælkeranum.

Staðurinn er virikilega notalegur með sæti fyrir um 30 manns inni og eins úti þegar vel viðrar. Húsið er yfir 100 ára gamalt og á það sér langa sögu en í því hefur verið starfræktur beitingaskúr, veiðafærageymsla, pakkhús og svo núna á seinni árum veitingastaður. Hús með góða sál og notalega nærveru.

Þjónustan var til fyrirmyndar en það er hún Sara Hjörleifsdóttir vert sem á og rekur staðinn og segir hún mikla áherslu lagða á staðbundið hráefni og sjálfbærni og hefur staðurinn hlotið umhverfisvottun Svansins sem er opinbert norrænt umhverfismerki. Þess má geta að staðurinn var sá fyrsti til að hljóta slíka vottun samkvæmt nýjum staðli Svansins á Snæfellsnesinu. Hamingjuóskir með það Sara.

Ef þú ert hrifinn af sjávarréttum, þá er þetta rétti staðurinn fyrir þig.
Mæli 100% með honum.

Nú ég naut þess að keyra um bæinn og skoða hús og mynda, það var smá rigningarlegt yfir bænum, örfáir dropar komu og síðan ekki meir en stillan var dásamleg og myndirnar fá að láta ljós sitt skína og þið fáið að njóta þeirra hérna með mér. Ef ykkur langar til að skoða meira af myndum frá ferðinni minni eins og öllum húsamyndunum sem ég tók þá er þær að finna hér á ljósmyndasíðunni minni Ingunn Mjöll Photography

Stykkishólmur er ekki svo stór bær en í honum er engu að síður margt í boði og margir veitingastaðir, Fish & chips vagn við höfnina, Pylsuvagn rétt hjá Bónus, nokkrar búðir sem gaman er að rölta um og skoða, hver elskar ekki búðir þar sem nánast allt fæst, þið skiljið mig. Jú og Bónus og Á.T.V.R er á svæðinu og fínasta sundlaug, eitthvað fyrir alla.

Læt þetta duga að sinni um þennan fallega bæ og ykkur að sjálfsögðu velkomið að deila áfram til fjölskyldu og vina.

Texti & myndir
Ingunn Mjöll


Skildu eftir athugasemd

Athugasemdir verða samþykktar áður en þær birtast.


Einnig í Blogg & greinar!

American SchoolBus Café!
American SchoolBus Café!

December 26, 2024

American SchoolBus Café!
Ég dáist að þrautseglu fólks sem kemur frá öðrum löndum til að byggja sér upp nýtt líf á Íslandi og hérna er ein stutt saga þess efnis um strákana George Ududec & Alex Slusar sem komu fyrir nokkrum árum síðan frá Rúmeníu til landsins til að vinna. 

Halda áfram að lesa

Stóreldhússýningin 2024!
Stóreldhússýningin 2024!

December 13, 2024

Stóreldhússýningin Laugardalshöll
Var haldinn dagana 31.október og 1.nóvember 2024 í Laugardalshöllinni. 
Þarna eru fjöldinn allur af matvælatengdum fyrirtækjum á markaðinum saman komin til að kynna sig og sjá aðra. Alltaf jafn gaman að koma og sjá, fræðast og smakka nýjungar sem mörg fyrirtækjanna eru með á boðstólunum.

Halda áfram að lesa

Hellarnir við Hellu!
Hellarnir við Hellu!

December 12, 2024

Hellarnir við Hellu!
Lengi langað til að skella mér í þessa hellaskoðunarferð á Hellu og lét loksins verða að því þegar ég dvaldi í viku í Fljótshlíðinni. Ég skellti mér í ferð sem boðið var upp á fyrir íslensku mælandi en þær eru auglýstar sérstaklega. 

Halda áfram að lesa