May 06, 2024
Matarmarkaður Íslands!
Var haldinn í Hörpu dagana 13-14 april 2024 þar sem bændur, sjómenn og smáframleiðendur koma saman og selja afurðina sína beint til neytandans og kynna vörur sínar.
Það er alltaf eitthvað nýtt að sjá og spennandi og í þessari heimsókn minni þá hitti ég marga og spjallaði við, kynnti mér nýjungar og keypti mér sitt lítið af hverju beint frá býli sem ég er spennt að elda úr.
Hérna ætla ég að sýna ykkur þær myndir sem ég tók og bæta við þeim upplýsingum sem ég get við en þetta er alls ekki tæmandi og er ég spennt að fara aftur næst þegar markaðurinn verður haldinn enda er ég sælkeri með meiru.
Einkunarorð Matarmarkaðar Íslands eru upplifun, uppruni og umhyggja.
Hjónin Eyjólfur Friðgeirsson og Bergþóra Einarsdóttir eigendur af Íslenskri hollustu með allt milli himins og jarðar í hollustunni buðu upp á smakk af bláberjasafa, sölum ofl áhugaverðu.
Wild Icelandic Gin ofl frá Og natura er stýrt af Ragnheiði Axel og Liljari Má sem hafa gert garðinn frægan í ginheiminum með Wild Icelandic Gin línunni.
Svava Hrönn Guðmundsdóttir var með Svava Sinnep á staðnum og bauð upp á smakk af 6 tegunum. Lesa má meira um Svövu Sinnep hérna
Nýung á markaðinum frá Vestmannaeyjum, Flögusalt frá Saltey og hérna eru þau tvö úr fjölskyldunni að kynna vöruna, bæði til í fallegri krukku og svo pokum til að fylla á síðar.
Falleg vara frá Saltey
Rabaría með allsskonar vörur unnar úr rabarbara ofl
Nýjung á markaðinum, hreinasta snilld frá Öldu Björk Ólafsdóttir hjá Matur & List og Krispa!
Hérna má sjá hana Öldu Björk með nýjung á markaðinum og ég smakkaði allar tegundirnar og ég gat bara ekki gert upp á milli þeirra og góðar voru þær.
Þetta kom mér kláralega mest á óvart og viti menn, jú þetta bara virkar!
Það þarf bara lítið að fara til spillis þegar hægt er að nýta roðið í svona gott og heilsusamlegt snakk.
Lengi hef ég fylgst með Mýranaut á feisbókinni og látið mér dreyma um að versla mér beint frá henni Hönnu S.Kjartansdóttir sem á og rekur það og ég lét drauminn rætast og keypti mér þessa tvo pakka sem hún heldur þarna á fyrir mig og ég er ofurspennt að prufa hvorttveggja og mun þá að sjálfsögðu deila því með ykkur.
Úrvalið var mikið og úr mörgu að velja, verður gaman að prufa meira síðar.
Geitafjársetur Íslands Háafell var á staðnum og kynnti sínar vörur, geitaafurðir, síróp, krem, sápur ofl áhugavert.
Hérna má sjá geitapylsur
Eimverk Distillery kynnti Íslenskt viský undir nafninu Flóki, þar er líka í boði Vor Gin, Víti brennivín, Limoncello ásamt fleirri nýjungum en hjá þeim er í boði á hverjum degi að koma á kynningar. Hægt að panta kynningu hérna
Hérna er glæný vara líka á markaðinum. Krækiberjaedik og Malt edik.
Te frá Teko, 5 tegundir í boði.
Hérna eru sósur frá LeFever sem er að mig minnir staðsett á Djúpavogi, ég þarf að safna í mig kjarki í þessar! Margar fallegar gjafapakkningar í boði hjá þeim.
Já og Útúrkú var á staðnum og bauð upp á smakk af súkkulaði, skemmtilegt nafn verð ég að segja.
Já og áfram hélt veislan frá Beint frá býli og hérna er á ferðinni hún Sigrún Helga frá Stórhól sem bauð upp á allsskonar nýjungar (fyrir mér) og má þar telja Ærlundir, Kiðlinga hrygg og tvennsskonar heimagerðar kæfur sem komu með mér heim og ég er spennt að prufa en ég kaupi reglulega eitthvað sem mér finnst áhugavert og langar til að elda.
Kiðlingahryggur
Og svo var það Rúnalist sem hún er með líka hún Sigrún Helga frá Stórhól
Sjáið svo þessar dúllur frá henni...
Hérna má svo sjá þau Jón og Siggu en þau eru líka tengd Stórhól eins og sjá má á myndinni og eiga þau heiðurinn í sameiningu af vörunum sem þau vinna úr beinum, ull og undir merki Drekagull Handverk og svo smíðaði hann Jón þennan fallega kross fyrir móður sína og hennar Sigrúnar en þau eru systkyni, dásamlega fallegur, eitt blóm fyrir hvert systkyn.
Hérna eru vörur frá Fine Foods Islandica sem hann Jamie Lee Founder & seaweed farmer er með og kynnti fyrir okkur á markaðinum.
Kaffistofan kynnti kaffi og kaffibrúsa, brúsa eins og við munum eftir hjá Kaffibrúsaköllunum frægu.
Hérna eru á ferðinni feðgarnir Sigurjón og Guðmundur eldabuska en sá yngri á og rekur Eldabuskuna sem er nýlegt á markaðinum þegar kemur að því að einfalda okkur lífið og þeir undirbúa fyrir okkur kvöldmatinn, snilldin ein svona inn á milli ekki satt, meira segja fyrir svona konu eins og mig sem eldar nánast á hverjum einasta degi og fáir skilja hvernig ég nenni því! Ég að sjálfsögðu smakkaði og þetta virkaði vel á mig. Í boði eru yfir 20 réttir að velja úr.
Fjóla Einarsdóttir og Sóley Björk Gunnlaugsdóttir
Live Food er nýtt á markaðinum sem framleiðir hágæða íslenska grænkera osta en hérna er á ferðinni áhugaverð vara sem hefur verið í ferli í 5.ár áður en hún kom á markaðinn og rétt bragð náðist á ostunum. Kom skemmtilega á óvart.
Þessir ostar eru í grunninn framleiddir úr íslenskum kartöflum og unnir með mjólk sem þau framleiða úr íslenskum höfrum.
Hérna er hægt að lesa allt um Live Food
Tvíburasysturnar Anna Marta & Lovísa voru á staðnum og kynntu dásamlega góðu súkkulaðihringina sýna ásamt Pestóinu, Döðlumaukinu og nýjustu vörunni þeirra Hnetuhringnum.
Þetta er svo sannarlega sælkera!
Dásamlegt ef þið mynduð deila þessari kynningu áfram, með fyrirfram þakklæti.
Síðuna má finna líka á Instagram.
Texti og myndir
Ingunn Mjöll/Islandsmjoll.is
June 30, 2024
June 19, 2024 1 Athugasemd
April 05, 2024