February 21, 2024
Mannamót 2024 - Hluti 3
Og áfram höldum við og núna erum við komin norðaustur eða á leiðinni þangað í það minnsta með smá viðkomu á Mývatni og Húsavík.
Þið eru hugsanlega einhver farin að spyrja ykkur afhverju ég er að skrifa um þetta allt saman, jú svarið er nú afar einfalt í minum huga. Þetta hjálpar mér að muna eftir áhugaverðum stöðum að koma á og skoða og gerir allt svo mikið áþreyfanlegra og svo er þetta einsskonar minningarbók fyrir mig og óskandi að í leiðinni þá sjáir þú eitthvað spennandi fyrir þig líka til að fylla í þína minningarbók!
Já og svo þekkjum við alltaf eitthvað af því sem verið er að kynna en bara í raun brotabrot af því, munið, stórasta land í heimi. Okkar fagra Ísland.
Ólöf Hallgrímsdóttir einn af eigendum Vogafjóss hægra megin og Arnþrúður Anna Jónsdóttir dóttir hennar vinstra megin.
Á nýársdegi árið 2020 var hún Ólöf sæmd Riddarakrossi íslensku fálkaorðunnar, fyrir framlag sitt til ferðaþjónustunnar og atvinnulífs í heimabyggð.
Vogabú hefur verið í eigu sömu fjölskyldu í um 120 ár.
Kýr og kindur voru uppistaðan til að byrja með kemur fram á heimasíðu þeirra, ásamt nokkrum hænum, tveimur hestum og hundi. Það hefur mikið breyst síðan þá. Því árið 1999 var byggt upp nýtt fjós og eru nú um 40 kýr og nautgripir í fjósinu.
Þar við bættist svo Kaffihúsið Vogafjós sem var svo byggt innan við fjósið en þar er boðið upp á ljúffengar veitingar. Í dag reka þau glæsilegt veitingahús þar sem hægt er að fá góðan mat með úrvarlshráefni frá Norðurlandi.
Hægt að sjá kýrnar mjólkaðar og jafnvel bragða á glænýrri mjólk beint úr spenanum. Hversu dásamlegt er það.
Árið 2005 bættu þau sem enn betur um og reistu gistihús við til viðbótar við Vogafjós. Gistihúsin eru falleg bjálkahús, herbergin rúmgóð og öll með sérbaðherbergi.
Heimasíðu þeirra má finna hérna
Auðvitað hafði ég myndað kýrnar og hérna er ein af þeim.
Árið 2017 í einum af ferðum mínum í kringum landið þá sá ég þennan og varð bara að ná mynd af blessuðum Fálkanum. Skemmtilegt líka frá því að segja að einmitt þegar var verið að heiðra hana Ólöfu með Riddarakrossinum í 1.janúar 2020 þá fæddi kvígan Ljúfa kálf sem reyndist vera naut og fékk hann nafnið Fálki.
Guðmundur Þór Birgisson framkvæmdarstjóri fyrir Jarðböðin á Mývatni
Hann kynnti böðin og nýjungar í uppbyggingu og stækkun á böðunum sem eiga að vera tilbúin árið 2025. Verður spennandi að koma við og sjá. Ég hef aðeins einu sinni farið í böðin og líkaði vel. Skemmtileg tilbreyting í ferðalagi mínu um landið það árið.
Jarðböðin eru fyrir alla sem vilja njóta þess að vera í beinni snertingu við náttúruna, slaka á og endurnæra líkama og sál. Boðið er upp á náttúruleg gufuböð, baðlón með heitu hveravatni og heitan pott. Það er gott að gefa sér góðan tíma og slaka vel á þarna. Vera og njóta.
Heimasíðu Jarðbaðanna má finna hérna
Slakaðu á - Njóttu - Upplifðu
Þarna má sjá yfir Jarðböðin í Mývatnssveit
Hérna eru þeir feðgar Elvar Yngvason og Yngvi Ragnar Kristjánsson að kynna fjölskyldufyrirtæki þeirra Sel Hótel Mývatni og Mývatn öl sem staðsett er á Mývatni.
Þarna hef ég komið á Kaffi Sel kaffihúsið þeirra og fengi mér kaffi og með því á ferðalagi mínu um landið.
Því hefur nú verið breytt í Minjagripaverslun þar sem boðið er upp á létta rétti sem gerðir eru á hótelinu og það nýjasta nýtt er bjórinn sem þeir eru farnir að brugga þarna og hægt er að fylgjast með á kaffihúsinu þar sem framleiðslan fer fram.
Verslunin er opin frá 09:30 - 16:30 alla daga, nema annað er gefið fram.
Nú á hótelinu eru 54 herbergi og eru þau öll með sérbaðherbergi.
Heimasíðuna þeirra má sjá hérna
Sel hótel Mývatn, einn daginn þá stoppa ég og borða þarna og fæ mér öl.
Já og ég tók eftir einu afar skemmtilegu en það er að allar Pizzurnar þeirra heita fuglanöfnum eins og Skúfönd, Rauðhöfði, Himbrimi, Grænhöfðinn, Skeiðönd, Gargönd, Duggönd, Urtönd, Flórgoðinn, Gulönd, Straumönd, Hávellan, Skógarþröstur, Gráþröstur og Svartþröstur, ég læt ykkur um að finna út hvað er á hverri.
Ég keyri aldrei í gegnum Mývatnssveitina án þess að stoppa þarna og kaupa mér reyktan silung frá Reykhúsinu á Skútustöðum, þvílíka dásemdin. Mæli með!
Mývatn á dásamlega fallegum degi árið 2017
Hérna er hún Signý Jónasdóttir að kynna Norðursiglingu/North Sailing á Mannamót en hún er með aðsetur á Árskógssandi þar sem nýlega var byrjað að sigla frá í staðinn fyrir Hjalteyri sem sem var áður en aðalskrifstofan er á Húsavík, höfuðborg hvalanna á Íslandi. Hvalaskoðunarferðir, siglingar, ævintýraferðir, hvalaskoðun á seglskútu, sigling út í Lundey þar sem má sjá fjölskrúðugt fuglalíf þar sem þúsundir Lunda dvelja yfir sumartíman, sigling við heimskausbaug, tveggja nátta ferð eða sigling út í Flatey á Skjálfanda, ein af draumaferðunum sem mig langar mikið til að fara í en þar er líka mikil fuglaparadís. Þangað er líka hægt að fara og gista í 2 húsum sem þar eru í útleigu, fá leiðsögn, kokk til að koma og elda ofl ofl en byrjum á Hvalaskoðunarferðinni, gjafabréfinu sem ég er búin að eiga í mörg ár en aldrei komist í, spurning hvaða ár það verður en stefnan er næsta sumar 2024.
Norðursigling á einnig veitingastaðinn Gamla Bauk á Húsavík sem byggður er úr rekavið og er fallega skreyttur margvíslegum munum og safngripum úr sjósókn og útgerð á svæðinu. Dásamlegur veitingastaður með frábært útsýni yfir höfnina.
Norðursigling tók einnig þátt í uppbyggingu hinna glæsilegu Sjóbaða á Húsavík sem opnuðu árið 2018 og hafa sannarlega slegið í gegn með óviðjafnanlegt útsýni yfir Skjálfandaflóa.
Heimasíða Norðursiglingar/North sailing má finna hérna
GeoSeo böðin á Húsavík.
Geosea er baðstaður á heimsmælikvarða sem vakið hefur eftirtekt fyrir gæði og fallega hönnun. Vatnið í sjóböðunum er hrein blanda af tæru bergvatni og jarðsjó sem inniheldur einstaka samsetningu endurnærandi steinefna fyrir húðina. Útsýnið yfir Skjálfandaflóa er stórkostlegt. Þetta er það sem ég las og var búin að láta mig dreyma um lengi en út af dálitlu þá varð biðin aðeins lengri en dagurinn kom engu að síður, fallegur dagur í maí 2022, ég búin að koma mér fyrir á Fosshótel og búin að fá mér góðan bíltúr og mynda. Ég rétt náði að mynda Kinnafjöllin og böðin áður en það skall á mikil þoka og ég man að ég hugsaði með mér að næst myndi ég hafa með mér húfu eins og heimamenn gerðu.
Dásemdar útsýni yfir sjóndeildarhringinn
En ein ofurlítil (og skemmtileg) frásögn og ykkur konum til varnar svona ef þið eruð eins blindar og ég.
Ég er reyndar blind á hægra, ég hlýt að hafa lokað hinu!
Ath.karlaklefinn er sá sem er fremri og kvenna er fyrir innan, ekki láta ímyndaðaða mynd af pilsi plata ykkur, það stendur þarna skýrum stöfum MEN og já ég fór í karlaklefann, klæddi mig úr og skundaði að sturtunum, setti handklæðið mitt á hankann og ætlaði að ganga inn í sturtuna þegar ég horfði á bakið á 1 karlmanni með handklæðið vafið utan um sig, þið fattið væntanlega eins og ég að hann hefur verið viðbúinn ;)
Svo sagði hann bara sorry sorry, take your time þegar ég hljóp á stað til baka, rakaði öllu úr skápnum ofan í töskuna mína með handklæðið utan um mig og hljóp yfir í konuklefann, mikið glöð að sjá þar konur og andvarpaði hátt og dróg inn andann, úff! Þá snéri ein sér við og kom á eftir mér og spurði, ekki fórstu í karlaklefann!! Það var mikið hlegið,,,
Ég var svo fegin að maðurinn var á leiðinni upp úr svo ég gat notið dýrðarinnar ofan í en á sama tíma þá fann ég hvernig ég roðnaði alltaf aftur og aftur og hló inni í mér að óheppni minni, ég get svo svarið það að ég sá mynd af pilsi en ekki MEN!
Hérna eru þær Sunna Guðrún Pétursdóttir og Halldóra Gunnarsdóttir hjá Ferðaskriftstofunni Norðurhjara - Edge of the Arctic.
Heimasíðuna þeirra má finna hérna en þar má finna upplýsingar um gistingar, veitingahús, hvað á að skoða og hvað hægt er að gera og hafa svo samband við þær og fá frekari upplýsingar, einmitt það sem ég ætla að gera.
Þarna má finna allt um hvað er í boði á norð-austurlandi, hvar hægt er að gista, skoða, borða og mikið sem ég er spennt fyrir ferðalagi mínu þangað, já og hringinn um landið.
Gilhagi er fjölskyldurekin sveitabær og þetta eru þau Guðrún Lilja og Brynjar Þór. Í Gilhaga er bæði ullarvinnsla og gestastofa þar sem hægt er að koma og skoða vinnsluna og einnig hægt að kaupa sér ullarbandið þeirra, setjast niður og kaupa sér drykki og með því ásamt fleirru. Í Gilhaga er sauð- og geitafjárrækt, býflugna og skógrækt. Virkilega áhugavert og komið á heimsóknarlistann minn.
Meira náði ég því miður ekki að sjá á sýningunni en í blálokin þá hitti ég þau
Dagný Jóhannsdóttir og Andra Má Jónsson eigendur af Menam sem er Thailenskur veitingastaður sem er staðsettur í Mólkurbúið Mathöll á Eyravegi 1, Selfossi. Ég rétt náði að smakka smá hjá þeim og viti menn, ég verð að fá meira og gera mér ferð fljótlega á Selfoss og njóta ljúffengra veitinga í leiðinni en svo skemmtilega vill til að ég á einmitt gjafabréf í gistingu sem ég ætla að nota í leiðinni og njóta þessa fallega bæjarfélags.
Heimasíðu Menam má finna hérna
Já og ég smellti af einni mynd af bás Friðheima en þangað hef ég komið einu sinni og borðað, alveg meiriháttar gott og einu sinni kom ég við og tók með súpu og brauð heim. Að mínu mati alveg meiriháttar gott og gaman að koma og sjá en ég á alveg eftir að sjá nýju uppbygginguna hjá þeim, spennandi að eiga eitthvað eftir, já það er af nægu að taka og nóg eftir og mér finnst alltaf eins og ég sé rétt að byrja.
Hlakka til að fara aftur á Mannamót 2025!
Endir,,
Ég var rétt búin með helminginn þegar klukkan var orðin 17 og ég hugsaði fyrst að ég hefði heldur betur misst af hinum helminginum, þetta hefði eiginlega þurft að vera í tvo daga en sá svo að ég hefði hitt einmitt þá sem ég þurfti á að halda þetta árið því stefnan er tekin á nyrsta kafla Íslands, Kópasker, Þórshöfn, Bakkafjörð, Vopnafjörð, Raufarhöfn, Langanesið og Heimskautsgerðið með viðkomu á einhverjum stöðum á leiðinni hringinn til að tengja alla ferðina saman.
Ef þú lesandi góður hefur ábendingar fyrir mig um gistingu á hringveginum og á þessum stöðum sem ég tel upp hérna að ofan, nú eða ert með einhverja þjónustu, ert einyrkji, veitingastað, kaffihús, gistingu eða annað sem þú telur að ég hefði gaman af að sjá, kynnast, fræðast og skrifa um, hafðu þá samband við mig á ingunn@islandsmjoll.is - Hlakka til að heyra frá ykkur!
Ég hugsaði einmitt, þar sem ég hef verið að ferðast um landið okkar fallega síðustu árin og skrifa/blogga um ferðirnar mínar, hvar ég gisti, borða, hvað ég sé, einyrkja, handverksfólk og allt sem vekur áhuga minn að Ísland væri svo sannarlega STÓRASTA LAND Í HEIMI og ég er ekki einu sinni búin með nema brota brot en eins og ég hef alltaf sagt og segi enn, góðir hlutir gerast hægt.
Það sem skiptir mig mestu er að njóta í nátturunni, njóta útsýnis, matar, hitta nýtt fólk, kynnast bæjarfélögunum og virkja tengslin og það gerði maður svo sannarlega á Mannamót, hlakka mikið til sumarsins og svo næsta árs að hitta fleirri ferðaþjónustu aðila víðsvegar á landinu á einum stað til að setja upp næstu ferð/ir.
ISLAND, STÓRASTA LAND Í HEIMI!!
Markaðsstofur landshlutanna má finna á feisbókinni hér
Athugasemdir verða samþykktar áður en þær birtast.
December 12, 2024
December 06, 2024
November 25, 2024