August 31, 2020
Hringferðin hefst!
Hótel Laugabakki, Hvammstangi, Hvítserkur, Borgarvirki, Vesturhóp ofl
Þann 3.ágúst hófst hringferðin mín í kringum okkar fallega Ísland og það verður að segjast að það er töfrum líkast að ferðast um landið og af svo mörgu að taka og sjá að það endist í margar ferðir og greinar. En hérna er byjunin á ferðinni 2020, komið þið með.
Fyrsta stopp var á Hótel Laugarbakka, sjá síðuna þeirra hér.
Hótelið var tekið upp og endurnýjað árið 2016 en þar var áður heimavistarskóli og Hótel Edda á sumrin en er í dag 3 stjörnu hótel.
Það má segja að ég hafi haft heppnina með mér en ég fékk gjafakort að gjöf frá vinkonu minni en þá var það við að renna út og enginn gat notað það svo ég ætlaði að reyna að nota það en það gekk ekki en löngu síðar ákvað ég að það sakaði ekki að hringja og spyrja hvort það væri hægt að nýta það og svarið var, vertu hjartanlega velkomin, svo þetta var súpergóð byrjun á hringferðinni minni.
Þegar ég mætti á staðinn þá kom í ljós að þetta var gjafabréf á Junior svítu og til að stytta frásögnina þá leyfi ég myndunum að tala sínu máli og segi sjálf að mér leið svo sannarlega eins og Prinsessu.
Ég ákvað að snæða á hótelinu og pantaði mér borð en þar sem 2.metra reglan var við líði þá var aðeins annað hvert borð í boði og mátti greinilega sjá að farið var með öllu með gát og til fyrirmyndar.
Ég fékk mér gómsæta súpu með nýbökuðu brauði á Veitingastaðnum Bakka á hótelinu og kaffi á eftir og naut svo kvöldsins í minni eigin svítu með því að horfa í smá stund á sjónvarpið í betri stofunni og færði mig svo í herbergið mitt og horfði smá stund þar sem var hinu megin við vegginn, hversu mikil snilld var það!
Ég get svo sannarlega mælt með þessu fallega hóteli þótt að utan frá séð sé ekki hægt að sjá innihald þess en þá stendur það víst til bóta og landslagið í kring er fallegt og stutt er að keyra á Hvammstanga og skoða þar og fara svo Vatnsvegshringinn en þar má sjá t.d. Ánastaðastapa og mynda hann, hann sést ekki frá veginum og þarf að ganga niður smá brekku en það er vel þess virði fyrir þá sem það geta, nú sjá má seli við Illugastaði, Hvítserkur heillar bæði menn og fugla og hægt er að skoða hann bæði á nýlega byggðum útsýnispalli og þeir hörðustu fara niður og mynda hann þar á ströndinni. Síðan er hægt að skoða bæði Vesturhópsvatn, Vesturhópskirkju sem er agnarsmá og Borgarvirkið fræga á þessari sömu leið. Ég læt hérna fylgja með nokkrar myndir sem ég hef tekið í öðrum ferðum af þessum fallegu stöðum.
Ánastaðastapi, mynd tekin í ljósmyndaferð. Sólin sest.
Selur á Illugastöðum
Hvítserkur, mynd tekin frá útsýnispallinum.
Þeir djörfu fara niður. Þessi leið er fyrir hliðina á útsýnispallinum en hugsanlega er hægt að fara niður lengra hjá bílastæðunum og ganga ströndina en ég þekki þó ekki þá leið neitt.
Hérna eru svo myndir teknar að og frá Borgarvirkinu
Borgarvirki er klettaborg á ásunum milli Vesturhóps og Víðidals, og er 177 metra yfir sjávarmáli. Borgarvirki er gosstapi með 10–15 metra háu stuðlabergslagi efst. Það myndaðist við eldgos á hlýskeiði ísaldar en þá rann grágrýtislag út Víðidal.
Að lokum langar mig til að benda á tvo staði sem hægt er að skoða út frá Laugarbakka en það eru Bjarg og Grettis saga Ásmundarsonar og Efri-Núpur.
Bjarg í Miðfirði var aðsetur og fæðingastaður eins frægasta útlaga í íslandssögunni, Grettis Ásmundasonar. Bærinn var í eigu móður hans Ásdísar. En sagan segir að höfuð hans sé grafið undir steini á Bjargi.
Minnisvarði var reistur Ásdísi á Bjargi árið 1974. Á honum eru lágmyndir úr Grettissögu eftir Halldór Pétursson.
10 mín. akstur frá Hótel Laugarbakka.
Svo er það Efri-Núpur sem er um 30.mínútur að keyra frá Laugarbakka.
Kirkjan að Efra-Núpi stendur í Núpsdal innarlega í Miðfirði og var löngum í þjóðbraut er leiðir lágu af Norðurlandi um Arnarvatnsheiði til byggða Borgarfjarðar. Í kirkjugarðinum er leiði skáldkonunnar Vatnsenda-Rósu er dó á Efra-Núpi er hún var á heimleið úr kaupavinnu 28. September 1855.
Þarna voru að sjálfsögðu vaktmenn að störfum og höfðu góða yfirsýn með öllu og öllum á þessum annars merka stað.
Athugasemdir verða samþykktar áður en þær birtast.
December 26, 2024
December 13, 2024
December 12, 2024