Grímsey, á 66,5°

April 12, 2023

Grímsey, á 66,5°

Grímsey, eyjan úti í Atlandshafi!
Draumurinn lokssins varð að veruleika, búið að haka við á ToDo listanum mínum yfir það sem mig langar til að sjá, skoða og upplifa á Íslandi og þetta var svo sannarlega eitt af því og skilur eftir sig sterka löngun til að fara þangað aftur.


Fyrir mig voru tvær nætur ekki nóg!

Grímsey er eyja 40 km norður af meginlandi Íslands.
Þar er litið þorp sem byggir afkomu sína að mestu á sjávarútvegi og er hún nyrsta mannabyggð Íslands og núna er ég búin að koma þangað.

Norðurheimskautsbaugurinn gengur í gegnum eyjuna norðanverða og þekur eyjan um 5.3 ferkílómetra og rís hæst 105 metra yfir sjávarmáli.

Gistiheimilið Básar og flugvöllurinn í Grímsey

Ég kom á eyjuna með Sæfara þann 18.maí 2022 og var stefnan tekin á að gista í tvær nætur á Gistiheimilinu Básum. Hún Ragnhildur (Gagga) tók á móti mér á bryggjunni og keyrði mig á gistiheimilið sem er staðsett fyrir hliðina á flugvellinum.

Þar fór vel um mig þessa tvo daga. Ég var með morgunmat innifalinn í verðinu en á staðnum er fullbúið eldhús þar sem hægt er að elda sjálfur sinn eigin mat enda ekki opið allan ársins hring á eina veitingahúsi staðarins en það er gott að vita þetta og vera meðvitað um en það er líka dásamleg gott að borða á Kríunni.

Sæfari við bryggjuna í Grímsey

Það var smá ólga í mér á leiðinni og mæli ég með að þeir sem verða sjóveikir geri ráðstafanir áður. Ferðin til baka var töluvert betri. Ég get allavega deilt því með ykkur að mig langaði ekkert í nestið mitt. 

Gagga hafði boðist til að keyra mig um eyjuna hvenær sem er svo ég hafði ekki tekið bílinn með mér út en þar sem ég er nú ekki með mikið úthald til að ganga langa vegalengd þá sá ég eftir því og mun klárlega taka hann með mér næst svo ég geti verið minn eigin herra og ekið um hvert og hvenær sem ég vil. 3 kílómetrar frá gististaðnum og að Kríunni veitingastaðnum og búðinni t.d. er bara aðeins of langt fyrir mig og svo þótt svo að heimamenn séu boðnir og búnir til að skutla þá hafði maður það ekki í sér að vera trufla vinnandi fólk og já þarna er mörgu að sinna og yfirleitt er fólk ekki bara í einu starfi þarna, þú hittir það hér og þar í margvíslegum hlutverkum og það er greinilegt að það er mikil og góð samvinna þarna.

Eins og margir vita þá brann Miðgarðskirkja í Grímsey til kaldra kola þann 21.september 2021. Ég hafði hitt smiðina um borð á leiðinni út í Grímsey og átti við þá skemmtilegt spjall en þarna var verið að ferja út fyrsta hluta uppbyggingarefnissins fyrir nýju kirkjuna sem gefur manni enn ríkari ástæðu til að koma og heimsækja eyjunna aftur fljótlega og sjá þá nýju kirkjuna. Það var sorglegt að sjá þarna svæðið autt en ánægjulegt að sjá að uppbygging var að hefjast og að í dag sé kirkjan risin þegar þetta er skrifað, (lesist, loksins skrifað :) ).

Þegar við komum að Gistiheimilinu Básum þá hitti ég strax hann Steven Mason, dásamlegan breta og tókum við tal saman. Hann sagði mér að hann væri búinn að vera búsettur á Íslandi í 20.ár og að hann væri að koma  út í Grímsey í sitt 10 sinn, svo mikið aðdráttarafl hefur eyjan haft á hann og hann eignast góða vini þar í gegnum árin. 

Hann er mikill áhugamaður um egg og eggjatínslu og hefur hann safnað þeim í áraraðir og fékk ég sýnikennslu í því hvernig þau eru blásin út og söguna á bakvið þennan einstaka áhuga en hann fékk hann frá föður sínum sem nú er fallinn frá. Falleg minning sem hefur gengið í erfðir. Hann var fullur af fróðleik og það var svo skemmtilegt að sjá hvernig hann lifnaði allur við í frásögnu sínum. Takk Steven.

Þegar eggin eru skoðuð vel má sjá að ekkert þeirra er eins, það var svo magnað!

En eins og ég var búin að segja þá eru allir boðnir og búnir til að skutla og sækja og eru vegalengdirnar ekki langar en það er gott að geta þegið skutlið svona eftir því hvernig viðrar ef þú hefur ekki tekið bílinn með þér yfir með bátnum en það er í boði en þarf að panta sérstaklega og ekki sjálfgefið að það sé pláss.

Hann Steven var reyndar ekki lengi að bjóðast til að taka mig í smá bíltúr, sagðist það hið minnsta mál og ég þáði það með þökkum og fengum við okkur bíltúr út að vitanum. Veðrið var svo sem ekki alveg með okkur, mikil þoka lá yfir eyjunni meira og minna tímann sem ég var þarna og rok en maður lét það nú ekki stoppa sig í gleðinni.

Æðislegur hamborgari og franskar á Kríunni

Við skelltum okkur síðan á Kríuna, eina veitingastað eyjunnar og fengum okkur að borða og hittum þar fyrir nokkra af þeim sem þarna búa og fljótlega barst talið að því að það væri verið að fara að týna egg daginn eftir en þessa helgina var víst mesta eggjatýnslan að fara í gang og á eyjunni var átt von á fullt af fólki í þennan árlega viðburð. Ég hafði aldrei upplifað neitt þannig á ævinni, ennþá!

Núna var sá tími kominn! Eggjatýnsluævintýraferð.... ég var sko til í það :)

Ég var svoooo heppin að fá að slást í för með þeim í eggjatýnsluna, þvílíka ævintýra ferðin! Á tímabili hugsaði ég á leiðinni upp þessa ca.70 metra yfir sjávarmáli og í mikilli þoku á brún slóðans, ég sá ekki neitt, ég sá ekki einu sinni brúnina þarna niður,  hvað í ósköpunum ég væri nú búin að koma mér út í, ég þessi líka lofthrædda! 

Keyrt var upp á jeppa og með traktór líka sem fór svo síðasta spölin áður en einn frækinn seig niður í týnsluna. Ykkur að segja þá gat ég ekki tekið myndir þar niður þegar hann seig sökum lofthræðslunnar svo ég bað einn af strákunum um að smella af nokkrum, ég gat ekki einu sinni skriðið að brúnni, mig svimaði svo!

Rétt áður en sigið var niður, allt klárt.

Sigið niður í týnsluna

Það var eins gott að ég vissi ekki fyrirfram hvert var verið að fara því þá hefði hugsanlega ekki farið með og ég hefði alls ekki viljað missa af þessu, bara alls ekki! Stundum er betra að vita minna ;) 

Þarna var ég komin í þvílíka ævintýrið og það að upplifa þetta, þó ekki sé nema bara einu sinni á ævinni þá finn ég bara til þakklætis til hans Steven að hafa sagt mér frá þessu og að hafa fengið að taka mig með og strákunum Sigurði og félögum hans að hafa verið boðnir og búnir að hafa þessa kellu með sér, já það er ekkert sjálfgefið. Takk strákar ef þið einhverntíman lesið þetta, takk af öllu mínu hjarta, þið voruð einstaklega æðislegir allir sem einn. Og takk fyrir boðið í grillið Sigurður, það toppaði daginn.

Nei hæ, myndataka! Lundi og Álka saman (mér var sagt að það væri sjaldséð að þessir sætu saman)

Lundi og Langvía saman (sökum þokunnar þá voru myndirnar eftir því)

Lundakrútt, æ ég elska þá!

Ég tók alveg fullt af fugla myndum og hérna eru bara örfáar en hægt er að skoða hinar á ljósmyndasíðunni minni á feisbók fyrir áhugasama, sjá hérna.

Ég varð svo auðvitað að borða eitt egg sem nýliði og jú, ég vissulega reyndi og hvernig það var og endaði, verður ekki sagt frá hér!

Ef ég fer aftur, þá verð ég allavega ekki nýliði. Hvorki verður heldur sýnd mynd né videó af því.

Ég fékk svo gefins tvö egg til að elda og eitt sem hann Steven blés út fyrir mig og tók ég þau með mér heim til minningar. 

En hvað fær fólk til að búa svona langt í burtu á eyju úti ?

Grímsey er einstaklega falleg eyja og mikil matarkista og er þekkt fyrir auðug fiskimið og litríkt fuglalíf. Í augum ferðamanna er hún nú líklega þekktust fyrir heimskautsbauginn og kemur fólk langa leið til að bera hann augum og stíga norður fyrir bauginn. Og það gerði ég líka. En í augum heimamanna þá er þetta lifibrauð þeirra allt árið um kring.

Hann elsku Steven var svo elskulegur aftur að hann keyrði okkur tvær af gistiheimilinu, mig og Natina eins langt og hann komst fyrir okkur og við gegnum svo restina ca.10 mínútur að Heimskautsbaugnum og svo sótti hann okkur svo aftur, svo við eigum honum það að þakka að hafa komist þangað, því það er ekki öllum gefið að geta gengið svona langt. Enn og aftur kemur hann við sögu þessi yndislegi maður. Það þurfa allir að hitta einn svona Steven og eina svona Natina en hana er ég að fara hitta aftur hérna á Íslandi núna í maí, nærri einu ári eftir að við hittumst fyrst, kannski við hóum bara í endurfundi og heyrum í honum Steven.

Natina elskaði að koma til Grímseyjar eins og ég. 

Heimskautsbaugurinn eða listaverkið Hringur og Kúla eins og það er kallað er eftir hann Kristinn E.Hrafnsson. 

Heimskautsbaugar heita baugar sem dregnir eru nálægt 66,5° norðlægrar og suðlægrar breiddar. 

Ég sjálf við Heimskautsbauginn. (Mynd tekin af Natina fyrir mig)

Göngutúr frá höfninni að heimskautsbaugnum er um 3.7 km og frá flugvellinum að baugnum um 2.5 km. Reikna má með um 3 klst. í gönguna (fram og tilbaka).
Hægt er að lesa sér betur til um heimskautsbauginn hérna

Séð yfir þorpið og bryggjuna

Fiskveiðar eru lifibrauð eyjamanna en á Grímsey eru tvær útgerðir í eigu tveggja fjölskyldna og svo eru hérna líka mikið af strandveiðibátum. 

Á eyjunni eru 3 gistihús/heimili sem hægt er að velja um og eru það Gistiheimilið Gullsól sem staðsett er í þorpinu sjálfu rétt hjá bryggjunni en þar er líka litið og krúttilegt kaffihús og handverksala þar sem íbúar eyjunnar geta allir komið að og selt sitt handverk. Ég mæli með innliti, þar er mikið úrval af allsskonar og líka dásamlega fallegum ljósmyndum.

Gullsól er rekin af Önnu Maríu ofl 

Pallurinn þar sem hægt er að njóta á fallegum degi og horfa yfir höfnina.

Svo hitti ég eina af elstu ábúendum Grímseyjar hana Áslaugu, tengdamóðir hennar Göggu í krúttilegu handverksbúðinni og fékk góðfúslegt leyfi til að smella af henni mynd.

Svo eru það Básar, eða Gistiheimilið Básar þar sem ég gisti en það er sem er rekið af henni Göggu en þær eru 5 konurnar sem eiga það saman. Hérna er hægt að fara beint inn á síðuna þeirra og skoða.

Gagga sér líka um mótökuna á flugvellinum sem er einmitt staðsettur á bakvið Bása, ásamt því að sjá um bókhald fyrir Bása og útgerðina og er gjaldkeri í kvennfélaginu Baugur.

Ég sagði ykkur, þau eru hér og þar.

Svo er það Artic Trip sem er í eigu hennar Höllu Ingólfsdóttur en hún er bæði með heimagistinguna Sveinsstaðir sem hefur nýlega verið tekið í gegn og svo ferðaþjónustu sem bíður upp á allsskonar sjóferðir/útsýnis og hægt er að panta í þær á síðunni. (Ég náði því miður ekki mynd af henni né hinum, þar sem það var mikið annríki hjá öllum, né af Sveinsstöðum en vonandi næ ég því bara næst þegar ég kem). 

Þeir sem bóka í ferðir að heimskautsbaugnum hjá henni Höllu fá fallegt skjal þess eðlis að hafa komið þangað en líka er í boði að kaupa það í handverksbúðinni.

Kvennfélagið Baugur er mjög virkt í samfélaginu og eru þær duglegar við að halda utan um allt sem til fellur og þarna voru þær á fullu að sjá um alla þá sem koma að uppbyggingu nýju kirkjunnar og höfðu þær breytt rými sem áður hýsti leikskólann í félagsheimilinu Múla í vinnuaðstöðu fyrir fólk sem kemur til að vinna fjarvinnu og dvelja á eynni.

Áætlað er að kirkjan verði tilbúin þann 23.september eða í kringum þann tíma sem gamla kirkjan brann en sú kirkja var byggð árið 1867. Gamla kirkjan var byggð úr rekavið af Árna Hallgrímssyni en var svo færð og endurbyggð árið 1932 og var þá Helgi Ólafsson á Borgum yfirsmiður.

Siglingin tekur um 3 klukkutíma með Sæfara ef silgt er út frá Dalvík en aðeins um 30 mínútur með flugi frá Akureyri. 

Á eyjunni búa um 60 manns en á kjörskrá voru 61, þar af eru 7 börn.
Yfir veturinn búa um 20-30 manns en þar sem skólanum var lokað þá þurfa krakkarnir að fara í skóla upp á landi og þá fylgja foreldrarnir með þeim eins og staðan er núna.

Hérna eru fjórar fjölskyldur sem halda úti allsskonar rekstri í ferðaþjónustunni og er alveg magnað hvað þau eru fjölhæf. Þegar ég kom þarna út í maí þá var svona allt við að fara í gang, svo að ég missti af mörgu og eins hafði mig langað mikið að fara í siglingu í kringum eyjuna og fræðast mun meira.

Er svo gott að gera ekki allt í einu og sömu ferðinni, ástæða til að fara aftur!


Veitingastaðurinn Krían er í eigu hjónanna Unnar Ingólfs og Svavari en þau reka einnig verslunina á staðnum og eru með sjóferðir og eiga þau einnig hlut í Gistiheimlinu Básum.

Ég smellti mér á samloku rétt fyrir brottför tilbaka frá eyjunni.

Maturinn á Kríunni fær mín bestu meðmæli og þau voru bara akkúrat rétt að byrja að bjóða upp á Svartfugl þegar ég var að fara en ég fékk góðfúslegt leyfi til að smella af mynd hjá þeim sem var að fara gæða sér á einum slíkum rétti, næst missi ég ekki af þessu!

Sigurður, Steven, Sigurður og mig vantar nafnið á þessum síðasta.
Eðaldrengir allir sem einn.

Þess má geta að hann Sigurður þarna í miðjunni hægra megin að hann á og rekur eitt af fyrirtækjunum sem bjóða upp á Jet ski og eru með Arctic Hot Dogs matarvagninn er opinn á meðan ferjan Sæfari stoppar í Grímsey. COD DOGS eru næg ástæða til að gera sér ferð út í eyju er sagt. Djúpsteiktir þorskbitar í brauði með grænmeti og jalapeno- hvítlaukssósu fær mig allavega til að fá vatn í munninn. Arctic Grímsey, sjá hérna

Sundlaugin er afar fín með heitum potti og þarna á bakvið má sjá aðstöðuna sem tilheyrir tjaldsvæðinu og skemmtilegt frá því að segja að þarna voru krakkar frá 3 mismunandi löndum að ferðast saman í fríi frá skólanum á Akureyri og þar sem þau voru með tjald, þá dóu þau ekki ráðalaus, þau bara skelltu tjaldinu upp inni í grillhúsinu, já svona á að redda sér í íslensku roki.


Ég skellti mér að sjálfsögðu í laugina.

Sundlaug á staðnum sem er opin eins og er alla virka frá kl.17-18 nema um helgar en sá tími getur þó alltaf breyst. Hún Anna María sér um sundlaugina en einnig sér hún um Gistiheimlið Gullsól og er virk í kvennfélaginu.

Yndislegi bjargvætturinn okkar Natina hann Steven á milli okkar.

2.nætur fyrir mig í þessari ferð voru of lítið, ég hefði svo viljað hafa lengri tíma og að geta deilt með ykkur meiru um þessa einstöku eyju og þá sem þarna búa og starfa, kannski mér gefist til þess tími fljótlega aftur og þá mun bílinn minn klárlega fylgja mér yfir svo ég geti farið meira um og myndað, spjallað og fræðst. 

Þar til næst!

Ef þú lesandi góður hefur einhverjar frekari upplýsingar sem þú myndir vilja sjá hérna bætt við, sendu mér þá póst á ingunn@islandsmjoll.is og við skoðum það.

Texti & myndir
Ingunn Mjöll

Væri dásamlegt ef þessu væri deilt áfram fyrir aðra áhugasama að lesa um. Takk fyrir!

P.S. Takk Gullsól fyrir að bjóða upp á allar upplýsingarnar um ykkur á Íslensku og Artic Grímsey, vá hvað ég kann að meta það og örugglega fleirri.

Það er mjög mikið orðið um það að enskan sé orðin fyrsta mál á síðum þar sem ég hef verið að leita eftir gistingum og alltaf þykir mér miður að sjá þegar það er ekki einu sinni boðið upp á upplýsingarnar á íslensku.




Skildu eftir athugasemd

Athugasemdir verða samþykktar áður en þær birtast.


Einnig í Blogg & greinar!

American SchoolBus Café!
American SchoolBus Café!

December 26, 2024

American SchoolBus Café!
Ég dáist að þrautseglu fólks sem kemur frá öðrum löndum til að byggja sér upp nýtt líf á Íslandi og hérna er ein stutt saga þess efnis um strákana George Ududec & Alex Slusar sem komu fyrir nokkrum árum síðan frá Rúmeníu til landsins til að vinna. 

Halda áfram að lesa

Stóreldhússýningin 2024!
Stóreldhússýningin 2024!

December 13, 2024

Stóreldhússýningin Laugardalshöll
Var haldinn dagana 31.október og 1.nóvember 2024 í Laugardalshöllinni. 
Þarna eru fjöldinn allur af matvælatengdum fyrirtækjum á markaðinum saman komin til að kynna sig og sjá aðra. Alltaf jafn gaman að koma og sjá, fræðast og smakka nýjungar sem mörg fyrirtækjanna eru með á boðstólunum.

Halda áfram að lesa

Hellarnir við Hellu!
Hellarnir við Hellu!

December 12, 2024

Hellarnir við Hellu!
Lengi langað til að skella mér í þessa hellaskoðunarferð á Hellu og lét loksins verða að því þegar ég dvaldi í viku í Fljótshlíðinni. Ég skellti mér í ferð sem boðið var upp á fyrir íslensku mælandi en þær eru auglýstar sérstaklega. 

Halda áfram að lesa