January 02, 2023
Gísli, Eiríkur & Helgi, Kaffihús Bakkabræðra
Þetta dásamlega kaffihús var opnað árið 2013 og er í eigu þeirra hjóna
Kristínar Aðalheiðar Símonardóttur og Bjarna Gunnarssonar.
Hjónin Bjarni og Aðalheiður (Heiða)
Ég mæli svo innilega með því að koma þarna við og fá sér Fiskisúpu að hætti þeirra hjóna með salati og heimabökuðu brauði sem bakað er úr Kalda bjór, virkilega áhugaverð útfærsla og einstaklega gott.
Kaffihúsið er fyrir löngu orðið þekkt fyrir sína vinsælu Fiskisúpu og ég get staðfest það að mínu mati hún er æðisleg, algjör sælkera fiskisúpa!
Og terturnar, engar smá Hnallþórur sem eru bakaðar þarna, þær eru æðislegar!
Ég að sjálfsögðu skellti mér á fiskisúpuna enda búin að hugsa mikið um hana frá því árið 2019 þegar við komum þarna við hópur af FKA konum í ferð okkar með norðurlandshópnum. En þá gistum við á Húsabakka í Svarfaðardalnum en komum við þarna í hádeginu og borðuðum ásamt því að fara á ansi skemmtilegan fyrirlestur í leiðinni sem haldinn var í leikhús/bíósalnum.
Best er að fylgjast með opnunartímanum á fesbókarsíðunni þeirra hérna þar sem hann getur verið afar breytilegur eftir árstíma.
Þema kaffihússins er tileinkað þeim Bakkabræðrunum, Gísla, Eirík og Helga en þeir bræður bjuggu á Bakka í Svarfaðardal og má sjá menningarminjar um þá víðsvegar um kaffihúsið, ekki gleyma að skoða það.
Þarna má finna líka gamlar bækur um þá bræðurna. Gaman að sjá.
Maður finnur anda þeirra svífa þarna um, pínu eins og þeir leiki lausum hala og séu allsstaðar, enda leiksviðið þeirra og víða má finna áhugaverðan fróðleik um þá bræður, bæði í rituðu máli og munum sem minna á þá og þeirra tíma.
Þarna er valin hlutur í hverju horni, hvert sem augum er litið, minningar flæða og þær taka mann mörg ár aftur í tímann sem er bæði svo gaman og gefandi, enda hér á ferðinni byggðarsafn um þá bræðurna.
Það er eins og að vera staddur í gamalli bíómynd!
Hérna er svo mynd af leikhúsinu/bíósalnum (Ungó) sem margir kannast við og kaffihúsinu. Það ætti ekki að fara framhjá neinum þegar hann er að keyra í gegnum bæinn.
Bækur þeirra bræðra
Bræðrastofa
Þeim hefur tekist virkilega vel upp með að nostra við kaffihúsið því hvert sem augum er litið má sjá ýmislegt frá gamla tímanum. Í hverjum krók og kima á kaffihúsinu sem svo teygjir sig alla leið inn á salernin líka en þar má sjá sitthvað áhugavert, segi ekki meira, sjón er sögu ríkari.
Ég skora á ykkur að koma þarna við til að bera þetta augum sjálf, sjón er sögu ríkari á svo sannarlega við hérna.
Efri hæð hússins
Ring ring...
Einu sinni var, verður hægt að segja fljótlega,
enda svona símtæki alveg við það að hverfa af sjónarsviðinu
til notkunar á flestum stöðum.
Mörgum gömlum munum er haldið til haga eins og sjá má hérna á myndinni eins og heyhvísl, mælistæki, þvottabretti ofl sem sumir muna eftir og þekkja á meðan aðrir hafa aldrei séð né vita til hvers það var notað á árum áður, minningar!
*Þau reka líka gistiheimili*
Þarna má sjá Vegamót, Gamla bæinn og smáhýsin 3 sem eru til útleigu.
Gististaðirnir þeirra bera líka merki gamla tímans og þar hefur þeim tekist líka listavel til og hafa verið að bæta inn gömlum munum hægt og bítandi. Hlýjan umlykur mann og það yljar manni að sjá.
Þau eru með glænýja heimasíðu þar sem hægt er að skoða alla þá gistingu sem í boði er og panta.
Gamli bærinn Vegamót, þar sem langamma hennar Heiðu bjó í, á sínum tíma.
Mig langar mikið til að gista þarna hjá þeim einn daginn og njóta Dalvíkur í allri sinni dýrð svona þegar rólegra er, ekki kannski alveg á háanna tíma, nú eða gista í krúttilega húsinu þeirra þar, sjálfum gamla bænum Vegamót, þar sem langamma hennar Heiðu bjó í, á sínum tíma, það væri nú eitthvað.
Hingað til hef ég bara gist á tjaldsvæðinu í tjaldvagninum mínum fyrir mörgum árum síðan á Fiskidögunum miklu. Þá var nú mikið fjör í bænum og ætti enginn að láta þá helgi framhjá sér fara en hún er yfirleitt helgina eftir verslunarmannahelgi. Þvílíka hátíðin.
Já, maður skyldi ætla að það væri nóg að reka kaffihús en þannig er það ekki með fólkið úti á landi, það dreifir sér og dúkkar upp hér og þar í nýjum hlutverkum sem er eitthvað svo innilega dásamlegt.
Þið kannist við þetta, er það ekki ;)
Að lokum, Heiða, ég er ekki búin að gleyma gömlu vigtinni sem ég ætla að færa þér, ég kem með hana, vonandi fljótlega næsta vor.
Svo má ég til með að benda ykkur á nýju heimasíðuna þeirra, sjá hér
Og hérna er feisbókarsíða Kaffihúss Bakkabræðra, Gísla, Eiríks og Helga.
Vona að þið hafið notið lestursins og það er velkomið að deila áfram, fyrirfram þakkir.
Texti & myndir
Ingunn Mjöll
Athugasemdir verða samþykktar áður en þær birtast.
December 26, 2024
December 13, 2024
December 12, 2024