Borgarfjörður eystri & Blábjörg

May 17, 2021

Borgarfjörður eystri & Blábjörg

Borgarfjörður eystri & Blábjörg
Og fegurðin þar allt um kring en bara brotabrot af sögu staðarins.

Blábjörg varð fyrir valinu hjá mér að gista á þegar ég var í hringferðinni minni í ágúst 2020 en það er staðsett í Gamla Frystihúsinu í miðju Bakkagerði.

Ég var að koma til Borgarfjarðar eystri í mitt fyrsta sinn og ég varð algjörlega heilluð af þessu fallega bæjarfélagi og 1 nótt var engan vegin nóg fyrir mig svo ég stefni á að fara aftur núna þetta árið.

Veðrið var fallegt á leiðinni og ég var svakalega spennt, ég hafði þó eina brekku til að keyra upp og þurfti ég að taka á honum stóra mínum, lofthræðslu minni svo um munaði. Ég stoppaði og horfði upp brekkuna áður en ég lagði af stað og sagði við sjálfa mig, þú getur þetta Ingunn, þú getur þetta og ég gat þetta.
Þegar upp var komið þá varð ég bara að stoppa og virða fyrir mér útsýnið, þvílíka dýrðin og mikið hvað ég var stolt af mér.
     
Fyrri myndina tók ég yfir þar sem ég keyrði upp og seinni á leið minni niður hinu megin.

Ég fór beint að gistiheimilinu og skráði mig inn og kom dótinu mínu fyrir í herberginu sem mér hafði verið úthlutað með þessa líka dásamlega útsýni.

Á Blábjörg er boðið er upp á úrvals gistingu og margvíslega möguleika, allt frá herbergi með sameiginlegri aðstöðu til lúxusíbúða, þitt er valið.

Brot af útsýninu mínu.

Ég spurðist fyrir hvar blessuðu Lundarnir væru en ein af aðalástæðunum að ég var komin þangað var til að mynda þá og var mér þá sagt að þeir væru nú allir flognir á brott, þeir væru bara nýfarnir og ég get ekki lýst fyrir ykkur vonbrigðum mínum að heyra það, æj æj, biðu þeir ekki eftir mér!
     
Hafnarhús café

Nú, ég var nú ekki alveg á því að trúa því, vildi kanna það og fékk leiðbeiningar á hvert ég ætti að fara og var sagt að þeir hefðu aðsetur á Hafnarhólmanum sjálfum þarna hinu megin við. Starfsmaðurinn sagði mér ennfremur að það væri nýbúið að opna þar kaffihús, þannig að ég byrjaði á að keyra þangað og fá mér dýrindis kaffi og dásamlega heimabakaða Rúgbrauðs tertu sneið, mín fyrsta líka og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Mæli með.

Þegar ég hafði notið stundarinnar þarna á kaffihúsinu rölti ég af stað með krosslagða fingur hlaðin myndavélunum mínum. Ef það væru engir Lundar eftir þá var víst fullt af öðrum fuglum þarna en Hafnarhólminn er vel þekktur fyrir mikið fuglalíf og litskrúðugt.
    
Þar má sjá Æðarfugl (Somateria mollissima), Fýll (Fulmarus glacialis), Ritu (Rissa tridactyla) og auðvitað Lunda (Puffin, Fracercula arctica) ofl 

Ég gekk upp töppurnar á hólmanum og dáðist af fuglalífinu sem var þarna út um allt. Ég myndaði aðra fugla og kíkti eftir lundum eins og aðrir þarna og sá enga nema langt úti á sjó. Ég var heppin að vera með linsu sem er með góðum aðdrætti svo ég gat myndað þá skemmtilega í sjónum og á flugi.

Þarna voru þeir blessaðir, langt úti á hafi.
    
Myndaröð af lunda úti á sjó

Skriðflug,,,
    
Kraftaverk gerðist svo,,, því allt í einu birtist einn nánast beint fyrir framan nefið á mér í hlíðinni með gogginn fullan af mat fyrir ungann sinn, sneri sér á alla kannta eins og að hann væri að stilla sér upp fyrir mig, kviss bang búmm og hvarf svo inn í holuna sína. Ég held að ég hafi lýst upp allan hólmann svo mikil gleði var á andlitinu á mér og útkoman, vá vá vá. Brosið hefur fylgt mér síðan bara við tilhugsunina.
    
Nei sko sjáið þið, annað kraftaverk. Annar kom, sá og sigraði og lét sig svo líka hverfa í sína holu. Ég þarf að hitta þá aftur á þessu ári svo mikið er víst.

Þegar þarna er komið fór ég alsæl aftur á gistihúsið en ég átti pantað í Spa & Wellness hjá þeim og í heita pottinn kl.18 í klukkutíma sem ég naut til hins ýtrasta ein í mínum potti út af svolitlu í þjóðfélaginu og horfði yfir fjörðinn hugfanginn. Þvílíkur dýrðarinnar staður og stund, það verða minnst 2.nætur næst.

Þegar ég hafði notið þess að liggja þarna var kominn tími til að taka sig til, ég átti nefnilega pantað borð á veitingastaðnum þeirra kl.20, Frystiklefanum sjálfum.

Mér var vísað til borðs og ahentur matseðill.
Ég var reyndar búin að skoða hann aðeins á netinu og þar hafði einn réttur vakið sérstaklega athygli mína svo ég pantaði strax.  Já, það kom ekkert annað til greina þarna hjá mér nema pizzan sem bar nafnið Gleðileg jól, pizza með hangikjöti komið þið sæl og blessuð. Hvað með það, þótt það væri bara ágúst.

Sú frumlegasta sem ég hafði séð á pizzamatseðli og svo sannarlega í anda pabba, ég bara varð að segja honum frá því að ég hefði fengið mér pizzu með Hangikjöti og alles, sá mikli hangikjötskall. Á matseðlinum voru þó fullt af öðrum frumlegum og skemmtilegum pizzum ásamt meiru sem bíður betri tíma fyrir sælkerann.

Gleðileg jól, hvít sósa, hangikjöt, grænar baunir, rauðkál & ostur.
Sjá matseðilinn hér

Dagurinn fékk góðan endi og lagðist ég alsæl á koddann, hugfangin eftir daginn, algjörlega snortin.
Ég vaknaði svo fersk um morguninn og skellti mér í ljúffengan morgunmat og hitti þar fyrir annan eigandann, hana Auði og náði ég stuttu spjalli við hana um það hvernig þetta ævintýri þeirra hjóna hefði nú byrjaði allt saman. Mér gefst kannski betri tími síðar til að heyra meira.

Hérna má sjá hana Auði standa vaktina í eldhúsinu um morguninn þegar ég fékk mér morgunmat áður en ég hélt ferð minni áfram.

En það eru þau Auður Vala Gunnarsdóttir íþróttakennari og Helgi Sigursson tannlæknir sem eiga og reka Blábjörg. Hún sagði mér í stuttu máli að þetta hefðir nú bara í byrjun átt að vera svona meðfram starf en að það væri farið að taka alltaf meiri tíma enda stækkandi með hverju árinu. Þau keyptu húsið sem áður var frystihús og byrjuðu að breyta því en það hafði staðið ónotað í um 20.ár en í því er nú rekið gistiheimilið, matsölustaðurinn, bar og baðhús með heitum pottum.

Það verður svo sannarlega áhugavert að fylgjast með þeim hjónum áfram því ég las það einhversstaðar á netinu að þeirra næsta verkefni væri að taka sjálft kaupfélagshúsið sem þarna stendur fyrir hliðina og færa því nýtt hlutverk. Það hús á sér afar merkilega verslunarsögu enn það var byggt árið 1896. 

Kaupfélagshúsið. (Ég smellti af því mynd án þess að vita sögu þess en það var eitthvað við það sem heillaði mig, kannski var það liturinn.

Hlakka til að sjá hvaða hlutverk húsið hefur fengið næst þegar ég kem en markmiðið er víst að koma því í upprunalegt horf.

Í Borgarfirði eystri er svo margt annað áhugavert að skoða og mun ég tengja það hérna við þegar fram líða stundir og ég hef skoðað það sjálf og skrifað um það, allt hefur sinn tíma. En fyrir göngufólk þá verð ég að benda á hina stórfenglegu Stórurð að lokum þar sem margir leggja leið sína á það.

Frekari upplýsingar fá finna hérna um Stórurð en hún er ein mesta náttúruperla Íslands og nýtur vaxandi vinsælda hjá göngufólki sem leggur á sig drjúga göngu til að skoða Stórurð og upplifa hrikaleik Dyrfjalla í návígi. Stórurð er mynduð úr risavöxnum móbergs- og þursabergsbjörgum

Texti & myndir
Ingunn Mjöll




Skildu eftir athugasemd


Einnig í Umfjallanir

By Artos!
By Artos!

June 30, 2024

Premium Seasoning blends by Artos!
Eru frábær krydd sem koma úr höndum hans Helga B Helgasonar matreiðslumeistara en hann lærði á sínum tíma hjá honum Stefáni í Múlakaffi á árunum frá 1976-1980. 

Halda áfram að lesa

LovaIceland!
LovaIceland!

June 19, 2024 1 Athugasemd

LovaIceland!
Virkilega góð krem sem eru nýleg á Íslenskum markaði en fyrirtækið LovaIceland  var stofnað árið 2017. Vörunar fást orðið víða og hafa íslendingar tekið vel á móti vörulínunni og er hún að á virkilega góð meðmæli.

Halda áfram að lesa

Matarmarkaður Íslands!
Matarmarkaður Íslands!

May 06, 2024

Matarmarkaður Íslands!
Var haldinn í Hörpu dagana 13-14 april 2024 þar sem bændur, sjómenn og smáframleiðendur koma saman og selja afurðina sína beint til neytandans og kynna vörur sínar. 

Halda áfram að lesa