March 25, 2020
Salktjöt og baunir, túkall!
Einu sinni á ári heyrist búmm! Já það er þegar ég búin að sprengja mig út af baunasúpunni, þykkri og góðri!
Flestir halda að það þurfi að leggja baunirnar í bleyti, jafnvel sólarhring áður en sjóða á súpuna,
en það er óþarfi. Það er hægt að setja þær beint í pottinn.
250 g gular baunir
2 l vatn
1 laukur, saxaður
2 tsk timjan, þurrkað
1,2 kg saltkjöt
500 g gulrófur, afhýddar og skornar í bita
500 g kartöflur, afhýddar og skornar í bita
250 g gulrætur, skafnar og skornar í bita
nýmalaður pipar, ef vill
Baunirnar settar í pott með vatni, timjan og lauk og hitað að suðu. Látið malla undir loki í um 45 mínútur.
Þá eru einn eða tveir kjötbitar settir út í en hinir soðnir sér í potti.
Látið sjóða áfram í um hálftíma. Þegar líður á suðutímann er rétt að líta á baunirnar öðru hverju, hræra og athuga hvort bæta þarf við vatni.
Grænmetið sett út í og soðið í 20-30 mínútur í viðbót, eða þar til allt er meyrt. Smakkað og e.t.v. kryddað með pipar og salti.
Einnig má sjóða allt kjötið sér en þá þarf að salta baunirnar, eða sjóða það allt í súpunni en þá gæti hún orðið of sölt.
Líka má sjóða kjötið allt sér en sjóða þess í stað vænan bita af beikoni eða söltuðu svínafleski í súpunni til bragðbætis.
Í kaþólskum sið var og er víða erlendis haldin mikil kjöthátíð kvöldið áður en langafasta hófst. Þetta var líka gert hér og sá siður hélst áfram þrátt fyrir siðbreytingu.
Heitið sprengikvöld, sem er eldra en sprengidagur, kemur þó ekki fyrir fyrr en á 18. öld.
Þá átti fólk að borða þar til það stóð á blístri og var að því komið að springa.
Lengi hefur verið hefð að borða saltkjöt og baunasúpu þennan dag og það gera líklega flestir enn þótt sumir hafi breytt eitthvað til og eldi e.t.v.
svolítið heilsusamlegri útgáfur af réttinum.
En þótt feitt saltkjöt sé ekkert sérstakt hollustufæði er ekkert nema gott um baunasúpuna að segja og
þá ætti að vera óhætt að fá sér dálítið af kjötinu með – það er þá alltaf hægt að skera fituna frá.
Létt baunasúpa
Fituminni útgáfa með minna kjöti en þó ekki síður bragðmikil og góð.
300 g gular baunir
2 l vatn
75 g magurt beikon
1 blaðlaukur (hvíti og ljósgræni hlutinn)
1 sellerístöngull
1 tsk. tímían
2 lárviðarlauf
nýmalaður pipar
750 g saltkjöt
500 g gulrófur
500 g gulrætur
hnefafylli af spínati (má sleppa)
Setjið baunirnar í pott og hellið köldu vatni yfir. Hitið að suðu og fleytið froðu ofan af.
Skerið beikon, blaðlauk og sellerí í fremur litla bita og setjið út í, ásamt tímíani, lárviðarlaufi og pipar.
Látið malla við fremur hægan hita í u.þ.b. klukkustund. Fitu- og beinhreinsið kjötið, skerið það í fremur litla bita og setjið út í. Látið malla áfram í 25 mínútur.
Afhýðið gulrófur og gulrætur, skerið í bita og setjið út í. Sjóðið áfram í um 25 mínútur, eða þar til kjötið og grænmetið er meyrt.
Bætið við svolitlu vatni ef súpan er mjög þykk en hækkið hitann, takið lokið af pottinum og látið súpuna sjóða dálítið niður ef hún er of þunn.
Skerið að lokum spínatið í ræmur (ef það er notað), hrærið saman við og berið súpuna fram.
Vertu velkomin að koma og vera með í Heimilismatur hópnum á feisbókinni
EÐA
Vertu velkomin að koma og vera með í hóp Sælkera á feisbókinni
Athugasemdir verða samþykktar áður en þær birtast.
December 06, 2024
October 30, 2024
October 28, 2024